Martin stigahæstur er Ísland tapaði

13.08.2017 - 13:20
epa04922674 Iceland's Haukur Palsson in action during the FIBA EuroBasket 2015 match between Iceland and Spain in Berlin, Germany, 09 September 2015.  EPA/LUKAS SCHULZE
Haukur Helgi Pálsson átti flottan leik með Njarðvík í kvöld.  Mynd: EPA
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tapaði í dag 82-69 gegn Rússlandi en staðan var 48-31 fyrir Rússlandi í hálfleik. Þetta var lokaleikur liðsins á æfingamóti sem fram fer þar í landi. Mótið er hluti af undirbúningi íslenska liðsins fyrir Evrópumótið í körfuknattleik sem hefst í Finnlandi í lok mánaðarins.

Rússarnir byrjuðu leikinn töluvert betur og voru fljótlega komnir með tíu stiga forskot sem þeir létu ekki af hendi og var munurinn kominn í 17 stig í hálfleik. Íslenska liðið spilaði hins vegar einstaklega vel í þriðja leikhluta og settu Rússar aðeins 12 stig á þeim kafla leiksins. Staðan fyrir lokaleikhluta leiksins 60-54 Rússum í vil.

Ísland átti svo fínan fjórða leikhluta framan af en Michail Kulagin, bakvörður Rússlands, hitnaði undir lok leiks og gerði út um vonir okkar manna gegn sterku liði Rússa. Kulagin endaði með 20 stig í leiknum.

Stigahæstur í íslenska liðinu var Martin Hermannsson með 22 stig en hann hefur verið stigahæstur í öllum leikjunum í Rússlandi. Þar á eftir kom Haukur Helgi Pálsson með 12 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson setti 11 stig.

Karfan.is greindi frá.

Evrópumótið í körfuknattleik fer fram dagana 31. ágúst til 17. september og verða allir leikir Íslands í beinni á RÚV. 

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður