Toyota á Íslandi hlaut umhverfisverðlaun atvinnulífsins sem umhverfisfyrirtæki ársins og Skinney Þinganes hlaut verðlaun fyrir umhverfisframtak ársins. Formaður Loftslagsráðs segir að það felist margvíslegur ávinningur í því fyrir fyrirtæki, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Umhverfisdagur atvinnulífsins er í dag en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Tvenn verðlaun voru veitt á ráðstefnu í Hörpu. Skinney Þinganes hlaut verðlaun fyrir umhverfisframtak ársins og Toyota á Íslandi var valið umhverfisfyrirtæki ársins. 

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, segir að það sé hvati fyrir fyrirtæki til þess að verða hluti af lausninni á loftslagsvandum.

„Það er mjög mikill hvati. Neytendur framtíðarinnar munu vilja hafa valkosti bæði varðandi þjónustu og vörur þar sem er lágt kolefnisspor. Þess vegna eru neytendur að leita að fyrirtækjum sem eru hluti af framtíðinni. Það er líka mjög mikill fjárhagslegur ábati af því að takast á við þetta. Það er líka mjög mikill hvati að vinna með öðrum. Það þarf líka að hugsa til langs tíma. Það þarf að vera á undan öðrum. Fyrirtæki sem koma með lausnir þegar allir aðrir eru búnir að finna út úr þessu. Það er í rauninni ekki horft til þeirra. Þannig að það skiptir miklu máli að vera svolítið á undan, vera frumkvöðull og líka að hafa hugrekki til þess að prófa nýja hluti,“ segir Halldór.