Ýmsar leiðir - og misskynsamlegar - hafa verið notaðar í gegnum tíðina til þess að aðstoða konur í barnsnauð. Ragnhildur Hólmgeirsdóttir rifjar upp hríðir sögunnar.
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar:
„Þegar við skoðum fortíðina þá blasa stundum við atriði sem eru miðlæg í mannlegri tilveru en samt næstum því óþekkt með öllu í dag. Eitt af þessum atriðum er saga fæðinga. Hver einasta mannvera sem uppi hefur verið hefur litið dagsins ljós í þessu ferli og stór hluti hvers samfélags upplifir það að fæða aðra manneskju. Hins vegar vitum við mjög lítið um fæðingar í fortíðinni annað en það að þær gengu nokkurn veginn upp, svona í meirihluta tilvika. Ástæðan fyrir þessari þögn er sú að fæðingar tilheyra reynsluheimi kvenna sem rataði sjaldan í ritaðar heimildir. Það eru konur sem fæða börn og lengst af var það hlutverk annarra kvenna að hjálpa þeim. Þetta tók fyrst að breytast af alvöru í hinum vestræna heimi á 17. og 18. öld þegar háskólamenntaðir karlmenn tóku að láta sig málið varða. Þá hófst opinbert eftirlit víða í Evrópu með störfum ljósmæðra. Þetta eftirlit fól í sér samþykki karlmanna á starfi þeirra, auk þess sem þeir fóru að gefa út fræðsluefni handa ljósmæðrum um það hvernig ætti nú eiginlega að gera þetta.
Góð ljósmóðir gat skipt sköpum
Við þetta stóraukast heimildirnar, en ljóst er að þær gefa skekkta mynd af því hvernig konur fæddu fyrir þennan tíma og hvernig aðstoð ljósmæður veittu þeim. Við getum þó gefið okkur það að í tvísýnum fæðingum þar sem aðstæður voru fyrirfram erfiðar, þá bjuggu ljósmæður ekki yfir læknisfræðilegum úrræðum til að skilja á milli lífs og dauða, eins og heilbrigðisstarfsfólk hefur í dag. Til eru lýsingar frá Englandi á 17. og 18. öld á því hvað ljósmæður gerðu fyrir skjólstæðinga sína og það var ekki mikið umfram það að veita spangarnudd og gefa jurtamixtúrur. Konur urðu heldur ekki ljósmæður með sérlega formlegum hætti í Englandi á 17. öld. Venjan var að töluverður fjöldi kvenna liti við í fæðingunni og hefði eitt eða annað óljóst hlutverk. Ef konur fundu að þetta starf átti vel við þær gátu þær gerst lærlingar hjá reyndri ljósmóður og tekið á sig æ stærri hlutverk í fæðingarstofunni, þar til þær nutu nægs trausts hjá konum til að vera beðnar um að taka á móti barni. Jafnvel þó opinber leyfisveiting og skráning ljósmæðra hafi þegar verið hafin um þetta leyti þá sóttu konur ekki um leyfið fyrr en þær höfðu starfað sem ljósmæður um nokkurt skeið og orðið sér úti um töluverða reynslu. Þó ljósmæður hafi ekki búið yfir kraftaverkaþekkingu á sviði læknisfræðinnar þá er augljóst af heimildum að góð ljósmóðir gat skipt sköpum í fæðingunni, sængurkonan gat þá treyst því að einhver sem þekkti ferlið gæfi henni bestu aðstoð sem í boði væri, sama hversu lítilvæg sú aðstoð kann að virðast í okkar augum. Eða svo við vitnum í orðin sem Súsanna Watkin æpti upp í hríðum á 17. öld , „Í guðs bænum náið annaðhvort í Ellin Jackson, eða sláið mig í rot.“
Skipaði vottum að kíkja undir pils sitt og viðstaddra
Þær heimildir um fæðingar og störf ljósmæðra sem ekki eru læknisfræðilegs eðlis koma yfirleitt úr dómsskjölum. Þessar heimildir urðu því til þegar eitthvað var óvenjulegt eða fór illilega úrskeiðis og gefa enn þá sérkennilegra sjónarhorn á fæðingar. Meðal slíkra skjala er lýsing á fæðingu spænskrar hefðarkonu í borginni Zaragoza þann 10. janúar 1490. Fæðingunni er lýst af skrifaranum Domingo Cuerla og er vottað af öðrum skrifara og einum skósmið sem mögulega átti bara leið hjá þegar hann var gripinn sem vottur. Þessir þrír menn voru viðstaddir í fæðingarstofunni allt frá því hríðirnar hófust og þar til fylgjan plompaði ofan í blóði fyllta skál og klippt var á naflastrenginn. Tilgangur hinnar verðandi móður, Ysabel de la Cavalleria, var að sanna það fyrir dómstólum að ef ófætt barn hennar reyndist drengur, þá væri hann í raun og veru hennar eigin sonur, að hún hefði ekki skipt út stúlkubarni. Ysabel var nefnilega nýorðin ekkja og samkvæmt erfðalögum þá erfði sonur mun stærri eignarhlut eftir föður sinn heldur en dóttir. Þess vegna geymir skjalið ekki bara lýsingu á fæðingunni heldur einnig kostulegar aðfarirnar þegar Ysabel skipar vottunum að skoða bæði upp undir sitt eigið pils og ljósmæðranna, auk þess sem þeir þurfa líka að leita rækilega undir rúminu.
Helgigripir notaðir við fæðingar
En hvernig fór fæðing fram á Spáni á 15. öld? Við þurfum að muna að Ysabel de la Cavalleria var mjög auðug kona, það gæti þess vegna hafa verið óvenjulegt að hún hafði tvær ljósmæður viðstaddar. En kannski hefði hún undir venjulegum kringumstæðum haft mun fleiri konur inni hjá sér, en stillti fjöldanum í hóf svo ekki þyrfti að leita undir of mörg pils. Ysabel fæddi ekki heima hjá sér heldur í húsi fjárhaldsmanns síns, sem einnig var viðstaddur. Á fyrsta stigi fæðingarinnar gekk Ysabel um herbergið á milli ljósmæðranna tveggja en lauk síðan fæðingunni sitjandi í fangi fjárhaldsmannsins, sem hélt henni uppréttri á meðan. Ljósmæðurnar krupu fyrir framan hana, söfnuðu blóði og legvatni í málmskál á gólfinu og tóku á móti barninu í klæði. Skrifarinn minnist oft á sársauka og kvein Ysabelu og þegar fæðingunni er aflokið er hún rænulaus af þreytu svo það er fjárhaldsmaðurinn sem gefur skrifaranum lokafyrirmælin. Hreyfing og lóðrétt fæðingarstaða virðast hafa verið lykilatriðin í þessari fæðingarhjálp. Að auki minnist skrifarinn á fjölda logandi kerta í sömu andrá og hann nefnir ýmsa helgigripi sem fjárhaldsmaðurinn heldur yfir kvið Ysabel.
Margrétar saga bundin um læri kvenna
Það væri gaman að vita hvaða helgigripir þetta voru, en þær upplýsingar gaf skrifarinn okkur ekki. Ef við snúum okkur til Íslands á sama tímabili, þá höfum við aftur á móti vísbendingu um einn slíkan grip. Á síðmiðöldum var mikil gróska í ritun dýrlingasagna á Íslandi eins og víðar í hinum kaþólska heimi og ein af þeim sögum sem nutu hvað mestra vinsælda hér á landi var saga heilagrar Margrétar. Margrét þessi var frá Antíokkíu í Sýrlandi og leið miklar píslir þegar hún neitaði að giftast heiðnum manni, þegar útlitið var sem svartast var hún beinlínis étin af dreka. En Margrét var svo heilög og fróm að drekinn gat ekki grandað henni, hún slapp ósködduð úr kviði hans og þess vegna endaði hún á því að verða verndardýrlingur kvenna í barnsnauð. Heilög Margrét virðist ennfremur hafa notið sérstöðu á Íslandi því í íslensku sögunni ákallar hún guð og biður um að: „Sá er ritar píslarsögu mína eða kaupir þá bók, fylltu þá af helgum anda. Og í því húsi, er bók sú er inni, verði þar eigi fætt dautt barn né lama.“ Í hinni íslensku handritahefð þá hafði bókin sjálf lækningamátt og það er vafalaust ástæðan fyrir því að Margrétar saga var eina dýrlingasagan sem Íslendingar héldu áfram að rita upp eftir siðaskiptin. Við vitum fátt um notkun hennar, enda virðist hafa verið hætta á því að þessi siður yrði talinn til galdra eftir siðaskiptin, en ef til vill mátti halda handritinu yfir kvið sængurkonunnar, líkt og gert var með hina ónefndu gripi þegar Ysabel fæddi son sinn í Zaragoza árið 1490. Flest handrit Margrétar sögu eru í það minnsta óvenjusmá, eitt þeirra er aðeins 9 x 7 sentímetrar. Öðru handriti sögunnar fylgja að auki bænir handa konum í barnsnauð og óljósar leiðbeiningar sem virðast kveða á um að binda eigi bókina, eða hluta hennar, við hægra læri konunnar.
Hvaða gagn skyldu handrit Margrétar sögu raunverulega hafa gert? Lyfleysa hefur alltaf einhver áhrif og í náttúrulegu ferli eins og fæðingu getur það skipt sköpum fyrir konur einfaldlega að vita að þær eru í færustu höndunum og með besta búnaðinn. Jafnvel þó hendurnar tilheyri ómenntaðri ljósmóður sem þvær sér aldrei og búnaðurinn sé lítið skinnhandrit um dýrling sem er gleyptur af dreka.“