„Ég hef oft sagt til gamans að skemmtilegasta verkið á vinnustofu Bigga hafi verið hann sjálfur,“ segir Kristján Loðmfjörð, leikstjóri Blindrahunds, nýrrar heimildamyndar sem fjallar um ævi og störf myndlistarmannsins Birgis Andrésssonar.

Í Blindrahundi er ævi og ferill Birgis rakin í gegnum frásagnir samferðarfólks frá bernsku og þar til hann lést sviplega árið 2007. Handrit, leikstjórn og klipping er í höndum Kristjáns Loðmfjörð og framleiðandi er Tinna Guðmundsdóttir. Myndin verður frumsýnd í Bíó Paradís á morgun, fimmtudaginn 9. nóvember.

Kristján segir áhuga sinn á verkum Birgis hafa kviknað þegar hann var sjálfur í myndlistarnámi. Ahuginn hafi svo aukist þegar hann kynntist manninum sjálfum. „Á bak við hvert einasta verk sem við ræddum reyndust vera sögur sem Birgir sagði af mikilli innlifun og gáfu viðfangsefnum hans fullkomið samhengi.“

Blindrahundur var sýnd í byrjun júní á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg, Patreksfirði, þar sem hún hlaut góðar viðtökur og vann bæði áhorfenda- og dómaraverðlaun. Heimildamyndin var 9 ár í framleiðslu, með hléum, og kemur út þegar 10 ár eru liðin frá fráfalli Birgis.  

„Myndlistin snýst mikið um það, að mínu mati, að finna.  Nálgast sinn uppruna og sitt nánasta umhverfi. Maður sér eitthvað og það situr í hausnum á manni í smá tíma, en hvað það er getur maður kannski ekki séð fyrr en nokkru seinna. Það er nákvæmlega það sama með svona nokkuð eins og með formála að bókum, þeir verða til eftir að verkin verða til.“

— Birgir Andrésson

Margbrotinn einstaklingur með stórt hjarta

Eins og fram kemur í myndinni þá ólst Birgir upp hjá foreldrum sínum í húsi Blindrafélagsins, sá eini með fulla sjón og því augu heimilisins. Þessar sérstöku aðstæður áttu eftir að verða honum dýrmæt uppspretta í allri hans sköpun. Í verkum sínum kannaði hann oftar en ekki samband tungumáls og myndmáls, þess sýnilega og þess ósýnilega, auk þess að hafa djúpstæðan áhuga á menningu og sögu landsins. Birgir var jaðarmaður og þekktur fyrir litríkan persónuleika, sem samferðamenn hans lýsa sem nokkuð einstökum.

En  hvað var það sem gerði Birgi svona sérstakan?

„Hann var náttúrulega bara mjög margbrotinn einstaklingur hann Biggi. Hann heillaði mjög marga, var mjög vinamargur. Hann var stór og mikill og talaði frá hjartanu, kom til dyranna eins og hann var klæddur og það gustaði af honum. Hann var óhræddur  við að segja hlutina umbúðalaust en samt var alltaf stutt í bangsann, í stóra hjartað. Það heillaði mjög marga.“

Kristján sagði frá kynnum sínum af Birgi og vinnunni við myndina í Víðsjá. Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér að ofan.