Mannsævi sem hliðstæða mannkynssögu

Guðrún Baldvinsdóttir, gagnrýnandi Víðsjár, segir bókina Mannsævi, eftir Robert Seethaler, vera næma og fallega sögu sem sitji í lesandanum eftir lesturinn, þótt erfitt sé að henda reiður á hvað veldur.

Guðrún Baldvinsdóttir skrifar:

Er hægt að koma einni mannsævi fyrir á 140 síðum? Er hægt að koma sögu 20. aldar fyrir í einni mannsævi?

Í nýrri bók austurríska rithöfundarins Robert Seethaler Mannsævi fáum við að kynnast hinum þögla og einbeitta Andreasi Egger og lífsskeiði hans frá upphafi 20. aldar og til nútímans. Bók Seethaler var tilnefnd til alþjóðlegu Man Booker verðlaunanna árið 2016 og hefur nú verið þýdd af Elísu Björgu Þorsteinsdóttur og Bjartur gefur út í neon-seríu sinni. Robert Seethaler er búsettur í Berlín en er fyrst og fremst þekktur fyrir starf sitt sem leikari en hann lék einmitt aðalhlutverk í nýjustu mynd ítalska leikstjórans Paolo Sorrentino, Youth.

Seethaler hefur þó einnig hlotið verðskuldaða athygli fyrir þessa skáldsögu sína og hefur hún verið þýdd á fjölda tungumála. Bókin lætur lítið yfir sér í fyrstu, og efni hennar, ævi venjulegs manns í fjallaþorpi í Ölpunum, hljómar ef til vill ekki eins og hún muni skilja mikið eftir sig. En skáldsagan kemur skemmtilega á óvart, og þá sérstaklega hvernig höfundurinn nær að smeygja inn fallegu myndmáli sem ekki fæst heildarmynd á fyrr en í lok bókarinnar. Þetta gerir það að verkum að þessi stutta saga rammast vel inn og skapar heildstætt listaverk frá upphafi til enda. Textinn er meitlaður en kemur heilli ævi til skila og í leiðinni togstreitu nútímans og þeirra einstaklinga sem á vegi hans hafa orðið.

Eins og áður sagði telur bók Seethaler ekki nema rétt rúmar 140 síður og er skrifuð í afar  knöppum stíl, þrátt fyrir að nafnið gefi annað til kynna. Mannsævin sem vitnað er í í titlinum er ævi Andreasar Eggers, manns sem er fluttur sem ungabarn í lítið þorp í Ölpunum upp úr aldamótunum 1900 og ver þar mestum parti af ævi sinni. 20. öldin og þær framfarir og breytingar sem henni fylgja ná inn í fjalladalinn þar sem íbúarnir fylgjast með heiminum taka breytingum.

Egger er þögull maður sem byggir sjálfsmynd sína fyrst og fremst á líkamlegum styrk, þrátt fyrir að vera haltur frá unga aldri. Hann talar lítið og sögumaður bókarinnar gefur lesendunum aðallega innsýn í hvaða  líkamlegu verk Egger tekur sér fyrir hendur. Tilfinningar hans birtast aðeins óbeint í sjáanlegum viðbrögðum hans og stuttum en áhrifamiklum setningum aðalpersónunnar.  Ást hans á unnustu sinni er t.d. þögul, viðkvæm og falleg - og þó að lesandinn fái ekki nema fáar efnisgreinar um samband þeirra verða tilfinningarnar áþreifanlegar í þögninni sem ríkir á milli einstaklinganna í köldu fjallaþorpinu.

Nokkrir vendipunktar verða í sögunni, rétt eins og þeir vendipunktar sem einkenna líf okkar allra og má segja að einn sá mikilvægasti í lífi Andreasar Eggers sé sá tími þegar litla fjallaþorpið öðlast sinn fyrsta kláf, svo hægt sé að ferja fólk upp og niður fjallshlíðarnar.

Kláfurinn er fyrsta merki um innreið nútímans í friðsælt fjallaþorpið og verður um leið að tákni fyrir framfarir 20. aldarinnar. Egger verður einn af þeim fyrstu sem ráða sig í vinnu hjá byggingarverktakanum sem setur upp kláfinn og lendir því í hópi þeirra fjölmörgu sem gefa af sínu eigin lífi í þágu framfaranna. Höfundur bókarinnar stillir aðalpersónunni oft upp sem ákveðinni hliðstæðu við þá þróun sem á sér stað í mannkynssögunni. Í eftirfarandi textabroti er dæmi um þessa hliðstæðu og lesandinn getur ekki stillt sig um að efast um sannfæringu Eggers á sínu eigin mikilvægi: 

„Egger stóð í hópi félaga sinna sem höfðu dreift sér um brekkuna fyrir neðan. Risahausinn og í hvert sinn sem hann sá fólkið uppi á pallinum klappa svipti hann handleggjunum á loft og rak upp fagnaðaróp. Í hjarta sér varð hann var einkennilegrar tilfinningar fyrir víðáttu og stolti. Honum fannst hann sjálfur hluti af einhverju stóru, einhverju sem var miklu öflugra en afl hans sjálfs (að ímyndunaraflinu meðtöldu) og myndi, það taldi hann sig vita, ekki eingöngu verða lífinu í dalnum heldur mannkyninu öll með einhverjum hætti til framdráttar.“

Hér sjáum við hvernig kláfurinn verður að haldreipi þorpsins inn í nútímann og meira að segja Egger, sem þó lifir lífi  sínu af staðfestu án raskana, finnur fyrir óyggjandi von og bjartsýni.

Um miðja ævi leiða örlögin Egger síðar til herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Þrátt fyrir að Egger sé á þeim tíma orðinn afar veikur í báðum fótleggjum er hann settur í mikla erfiðisvinnu og heldur þannig áfram hlutverki sínu sem lítið peð ímyndaðra framfara.

Þó að skáldsagan taki nútímahugtakið ekki beinlínis fyrir eða setur það í forgrunn þá er nútíminn sjálfur það sem drífur frásögnina áfram. Heimspekingar 19. og 20. aldar hafa þurft að glíma við þetta flókna hugtak og hvað það merki að við lítum á ákveðinn punkt í sögu mannkyns þar sem nútíminn á að hafa hafist. Ákveðin skil urðu í tilvist mannsins og tími framfara hófst, upphafspunktur þar sem mannkynið tók skref í framfaraátt.

Fjallaþorp Andreasar Eggers stendur utan við iðnbyltingu 18. og 19.aldar í Evrópu, allt þar til einu fyrirtæki dettur í hug að byggja lyftuna í miðri fjallshlíðinni. Nútíminn bankar á dyr dalsins og líf þorpsbúanna breytist, þótt Egger láti það í raun lítið á sig fá. Heimsstyrjöldin sem hann síðar tekur þátt í verður einn af meginpunktum í sögu 20. aldar en hefur í raun ekki meiri áhrif á líf mannsins en ástin á unnustu hans. Þannig eru sögulegir punktar í veraldarvæðingu þorpsins og álfunnar í heild dregnir saman svo þeir verða samstíga og ómögulegt er að greina á milli hvor þátturinn hefur meira vægi.

Þessi skáldsaga Seethaler dregur upp mynd af einföldum manni og tengslum hans við heimili sitt og uppeldisstað, fólkið í lífi hans og þeim breytingum sem eig sér stað á ævi hans. Kuldinn er áberandi afl í sögunni og dregur höfundurinn upp sannfærandi mynd af þorpinu í vetrarbúningi, af þeim líkamlegu kvillum sem hem Egger þjáist af, og þeim tilfinningum sem ekki eru færðar í orð.

Mannsævi er einstaklega næm og falleg saga sem situr í manni eftir lesturinn þótt erfitt sé að henda reiður á hvað nákvæmlega það er sem hefur slík áhrif. Hver einasta setning hefur djúpa merkingu og fjallar um baráttu Mannsins við náttúruna sem og baráttuna við eigin örlög.

 

 

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi