Dauðinn er óumflýjanlegur en hann er ekki alltaf óútreiknanlegur. Stundum er ljóst í hvað stefnir. Sumir þeirra sem glíma við banvæna sjúkdóma vilja hafa val um hvernig þeir haga lífslokum sínum og líta á það sem mannréttindi að fá að ráða því hvenær þeir fara.

Í Spegli dagsins er rætt við tvær konur, Sylviane Pétursson Lecoultre og Þórlaugu Ágústsdóttur. Þær vilja að hér á landi verði löglegt að aðstoða dauðvona fólk við að fremja sjálfsvíg. Sylviane er iðjuþjálfi og ekkja manns sem þáði aðstoð svissneskra samtaka, Dignitas, við að deyja vorið 2013. Hann var með heilaæxli sem olli honum mikilli fötlun og vildi deyja á eigin forsendum. Þórlaug hefur háð langa baráttu við alvarlegt krabbamein og er nú í sóttarhléi. Hún er ein fárra sem hefur útskrifast lifandi af líknardeild og læknar hafa sagt hana gangandi kraftaverk. Á líknardeildinni dó einhver á þriggja daga fresti, á meðan hún sat kannski og drakk te í setustofunni, rúlluðu starfsmenn líkunum fram á börum og ræddu um hversdagslega hluti á borð við hádegismat og vaktaskipti. Þórlaug hugleiddi ýmislegt sem mörgum er framandi. Svo sem hvernig hún gæti dáið með reisn og eins fallega og hægt er. Hugsanirnar snerust um fjölskylduna og líðan hennar nánustu en einnig það að binda enda á sársaukann sem hún þurfti að þola.

Sylviane flutti í dag erindi á málþingi sem Siðmennt hélt um líknardauða