Ákvörðun borgarstjornar um að sniðganga ísraelskar vörur hefur skaðað meirihlutann. Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Með því að vanda betur til verka þegar málið verði unnið áfram sé hugsanlega hægt að endurvinna traust.

Rætt var við Dag í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Ég held að þetta mál hafi verið sett fram af góðum hug til þess að undirstrika áherslu borgarinnar á mannréttindi. Við stóðum hins vegar þannig að því að það skaðaði bæði þann málstað og ég held að það hafi skaðað meirihlutann og það er bara eitthvað til að horfast í augu við finnst mér. Ég held að það skipti bara mjög miklu máli þegar við vinnum þetta mál áfram að við gerum það þá betur og með því þá endurvinnum við hugsanlega eitthvert traust,“ segir Dagur. 

Hann segir að ekki hafi verið haft samband við utanríkisráðuneytið áður en tillagan var samþykkt en hann hafi rætt við utanríkisráðherra um helgina. Aðspurður um það hvort hann hefði íhugas afsögn vegna málsins segir Dagur að honum þyki það stór orð hjá fulltrúum minnihlutans að leggja það til. 

Ekki hefð
Dagur var jafnframt inntur eftir því hvort það væri hefð fyrir því að borgarfulltrúar geti lagt fram „einhvers konar gælumál þegar þeir eru að fara út úr borgarstjórn og fengið þau samþykkt“. Dagur segir að það sé í raun ekki hefð heldur hafi komið nokkrum sinnum upp á allra síðustu árum þegar borgarfulltrúar hafi hætt á miðju kjörtímabili. Þannig hafi Árni Þór Sigurðsson lagt til að gerð yrði hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík. „Þetta er bara einn af lærdómum þessa. Það má ekki vera þannig að fólk, af því að það sé að hætta í borgarstjórn, geti lagt fyrir eitthvað án þess að það sé skoðað nægilega vel, að sjálfsögðu ekki,“ segir Dagur og viðurkennir að hafi þetta verið hefð þá sé hún ekki sniðug og verði aflögð. 

Dagur segir að meirihlutinn hafi ekki talið sig vera að fara á svig með lög með ákvörðun borgarstjórnar. Í samráðinu sem framundan sé verði farið yfir sjónarmið utanríkisráðuneytisins og fleiri.  „Lærdómurinn af því sem orðið er er að ég eigi að fullyrða minna á þessu stigi og láta bara vinna þetta almennilega. Skoða þetta frá öllum hliðum áður en við svo mikið sem tökum ákvörðun um næstu skref,“ segir Dagur. 

Ekki víst að meirihlutinn leggi fram nýja tillögu
En er heppilegt að koma með nýja tillögu sem er þrengd er niður á hernumdu svæðin? „Ég hef ekki slegið því föstu að það komi ný tillaga,“ segir Dagur og bætir við. „Núna förum við í þetta samráð og tökum ekki ákvörðun um næstu skref fyrr en að því loknu.“