Vilhjálmur Árnason prófessor og siðfræðingur segir að mál Illuga Gunnarssonar og Orku Energy snúist um hagsmunaárekstur. Einfalt mál hafi verið flækt.

Vilhjálmur er einn höfunda viðauka um siðfræði í rannsóknarskýrslu Alþingis um efnahagshrunið.  Hann sagði i viðtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2 að frá siðferðilegu sjónarmiði væri mál Illuga frekar einfalt en það væri búið að flækja það með því að eltast endalaust við kvittanir og fleira.

„Ég held að það rugli umræðuna frá kjarna málsins, sem er að þarna er hagsmunaárekstur. Hann lendir í fjárhagsvandæðum eins og margir aðrir. Hann leysir það á ákveðinn hátt, sem er alveg skiljanlegt að venjulegur borgari geri, en þá er hann kominn í stöðu, sem ráðherra með ríka almannahagsmunagæslu, í hagsmunaárekstur.  Þá skipta ekki máli einhverjar kvittanir, heimilsbókhald og annað slíkt. Við eigum ekki að vera að flækja það þannig, heldur bara að horfa á þessa stöðu. Þá verðum við að spyrja okkur hvers konar stjórnmál viljum við hafa. Hvers konar stöðu okkar helstu stjórnmálamenn séu í að þessu leyti. Þess vegna verða menn að spyrja sig t.d., hvað ef að allir ráðherrar væru í svona stöðu, þar sem þeir væru háðir einhverjum einkaaðila með fjármál sín“ sagði Vilhjálmur Árnason.