Starfsfólk verkfræðistofunnar Eflu fær nú upplýsingar um kolefnisspor matarins sem er á boðstólum í mötuneyti vinnustaðarins. Kolefnissporið er mælt með sérstökum hugbúnaði. Kokkurinn er orðinn grænkeri nú eftir að þessar upplýsingar eru birtar á skjá í mötuneytinu.
Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur, bjó hugbúnaðinn til. Með hugbúnaðinum er hægt að mæla kolefnisspor hverrar máltíðar. „Þetta virkar þannig að kokkurinn okkar fyllir inn hverja máltíð og þá berum við saman kjöt- eða fiskmáltíð og grænmetisrétt. Síðan birtum við þetta á skjá í mötuneytinu hjá okkur þannig að allir geta séð hver er munurinn, hvort er með minna kolefnisspor,“ sagði Sigurður í Kastljósi kvöldsins.
Boðið var upp á steikta kjúklingaleggi og grænmetisbuff í hádegismatnum í dag. Kolefnisspor kjúklinganna er þrisvar sinnum stærra en grænmetisbuffanna. Sigurður segir að reynt sé að setja þessar upplýsingar fram eins skýran hátt og hægt er. Við mælinguna á kolefnissporinu er tekið tillit til framleiðslu matvælanna, breytingar á landnotkun og býlið sjálft, flutningur, úrvinnsla og allt ferlið þar til maturinn er kominn út í búð.
Umhverfisvika var í Eflu í síðustu viku og þá var Ágúst Már Garðarsson, kokkur, beðinn að setja þessar upplýsingar inn í hugbúnaðinn. Hann sjálfur var kjötæta þangað til í síðustu viku. Hann kveðst þó alltaf hafa verið tilbúinn að skoða leiðir í umhverfisvænni átt. „Ég fór að reikna þetta út og viðbrögðin eru ótrúleg.“ Hann segir mjög valdeflandi fyrir fólk að geta tekið ákvörðun um hvað það borðar út frá svo nákvæmum upplýsingum. Hann ákvað síðasta fimmtudag að prufa að vera grænkeri og neyta ekki neinna dýraafurða. Kokkurinn tók þessa ákvörðun eftir að hafa séð muninn á kolefnisspori dýra- og grænmetisafurða.
Viðbrögð starfsfólksins við þessum nákvæmu upplýsingum hafa verið góð, að sögn Ágústs. Sumir velta upplýsingunum vel fyrir sér en aðrir einfaldlega hundsa þær. Sigurður segir að grundvallarbreytingin sé sú að nú sé fólk farið að tala um þessi mál. Ekki sé verið að skipa fólki fyrir, heldur veita því nákvæmar upplýsingar sem það geti svo nýtt þegar það ákveður hvað það borði.