Maduro vill hitta Trump augliti til auglitis

epa06136703 A handout photo made available by the Miraflores Press shows Venezuelan President Nicolas Maduro attending a meeting of the National Constituent Assembly in Caracas, Venezuela, 10 August 2017. Maduro attended a meeting of the National
Maduro ávarpar stjórnlagaþingið nýja, í þingsal löggjafarþingsins í Caracas. Þingmönnum síðarnefnda þingsins hefur verið úthýst úr þinghúsinu og vopnaðir hermenn varna þeim inngöngu.  Mynd: EPA  -  EFE/MIRAFLORES PRESS
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, vill hitta starfsbróður sinn í Hvíta húsinu á fundi og ræða við hann augliti til auglitis. Hefur Maduro falið utanríkisráðherranum í stjórn sinni, Jorge Arreza, að gera það sem þarf, svo hann „geti átt persónulegt samtal við Donald Trump." Maduro er afar ósáttur við að Bandaríkjastjórn skuli hafa samþykkt refsiaðgerðir gagnvart honum á þeim forsendum að hann hafi grafið undan lýðræðinu í Venesúela með stjórnarháttum sínum.

Því vill hann ræða beint við Trump þegar þeir mæta báðir á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York 20. september næstkomandi. „Ef hann hefur svona mikinn áhuga á Venesúela, þá er ég til staðar. Herra Donald Trump, hér er útrétt hönd mín," sagði Maduro þegar hann ávarpaði hið nýja og umdeilda stjórnlagaþing Venesúela, sem kosið var að hans undirlagi þann 30. júlí og hefur í raun sett rétt kjörið löggjafarþing landsins af. Jafnframt boðaði hann málshöfðun fyrir bandarískum dómstólum með það fyrir augum að fá refsiaðgerðirnar dæmdar ólögmætar. 

31. júlí, daginn eftir stjórnlagaþingkosningarnar í Venesúela, kynnti stjórnin í Washington refsiaðgerðir gegn Maduro sjálfum, en óvenjulegt er að slíkum úrræðum sé beint gegn þjóðhöfðingjum persónulega, en Trump og aðrir ráðamenn vestra hafa kallað Maduro einræðisherra. Gefin var út tilskipun sem kvað á um að frysta skyldi hverjar þær eignir sem Maduro kynni að eiga í Bandaríkjunum og í bandarískum fjármálastofnunum, auk þess sem bandarískum ríkisborgurum var bannað að eiga við hann nokkur viðskipti. Í vikunni sem er að líða var svo gefin út tilskipun um svipaðar refsiaðgerðir gagnvart nokkrum fulltrúum á hinu nýja stjórnlagaþingi Venesúela.