Amma bandarísks drengs sem hvarf fyrir átta árum segist miður sín yfir því að ungur maður hafi í vikunni logið því að hann væri drengurinn. Tæplega hálf milljón tilkynninga um týnd börn berast yfirvöldum í Bandaríkjunum ár hvert.
Lögreglan í Illinois í Bandaríkjunum hafði á miðvikudag afskipti af ungum manni, sem sagðist vera Timmothy Pitzen, drengur sem leitað hefur verið að frá árinu 2011.
Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að Timmothy var ekki fundinn, maðurinn er 23 ára síbrotamaður sem nýverið slapp úr fangelsi.
„Þetta hefur verið hræðilegt. Við höfum sveiflast milli þess að vera vongóð og skelfingu lostin. Ég er miður mín,“ segir Alana Anderson, amma Timmothys.
Timmothy var sex ára þegar móðir hans sótti hann snemma í skólann, dag einn fyrir um átta árum. Hún fór með hann í dýragarð og aðra skemmtigarða, en fyrirfór sér svo á hótelherbergi í Illinois. Hún skildi eftir sig bréf þar sem stóð að Timmothy væri í öruggum höndum, en að þau sem leituðu hans myndu aldrei finna hann. Og það hefur hingað til reynst rétt. Því Timmothy er ekki einn.
Árlega er lýst eftir 460.000 börnum í Bandaríkjunum. Til samanburðar má nefna að lýst er eftir um 100.000 börnum í Þýskalandi ár hvert. Árlega er lýst eftir um 113.000 börnum í Bretlandi og um 20.000 börnum á Spáni.
Í upplýsingum um gagnagrunninn þar sem þessar upplýsingar eru teknar saman segir að talan nái yfir fjölda tilkynninga, en í einhverjum tilfella er lýst oftar en einu sinni eftir sama barninu.
Mikill meirihluti barna sem lýst er eftir í Bandaríkjunum stingur af af sjálfsdáðum (92%), 4% eru numin á brott af einhverjum í fjölskyldunni, 3% er ungt fólk á aldrinum 18 til 20 ára hverra brotthvarf á sér engar augljósar skýringar, 1% eru numin á brott af einhverjum sér óskyldum eða hverfa af öðrum orsökum.
Flest barnanna finnast, mörg fljótlega eftir að lýst er eftir þeim, önnur aðeins síðar. Og svo eru það þau sem finnast aldrei.