Kæra Jelena, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu, er sem fyrr áhrifamikið leikrit sem á erindi við samtímann þrátt fyrir misráðna staðfærslu til ótilgreinds nútíma að mati Brynhildar Björnsdóttur, gagnrýnanda Menningarinnar.
Brynhildur Björnsdóttir skrifar:
Sýning Þjóðleikhússins á Kæru Jelenu árið 1991 er ein eftirminnilegasta leiksýning sem ég hef nokkru sinni séð. Og ég er ekki ein um þá reynslu, jafnvel er hægt að segja að sú sýning hafi mótað heila kynslóð leikhúsgesta sem býr að henni í minningunni. Það er því nokkuð djarft en um leið afar skiljanlegt af Borgarleikhúsinu að setja verkið upp næstum þrjátíu árum síðar, þegar bæði heimsmynd og heimur hafa breyst svo um munar. Eigi slíkt verk enn erindi er mikilvægt að halda því á lofti.
Kæra Jelena var frumflutt í Sovíetríkjunum árið 1980 eftir að leikskáldið Ljúdmíla Razumovskaya fékk það verkefni frá menntamálaráðuneytinu að skrifa leikrit um vandræðaunglinga. Ráðuneytið hafnaði verkinu sem þrátt fyrir það var sett upp nokkrum sinnum við góðar undirtektir þar til það var bannað af yfirvöldum árið 1983 en svo leyft aftur árið 1987 í kjölfar þeirra miklu breytinga sem leiddu til falls Sovíetríkjanna og þá fór það sigurför um heiminn. Kæra Jelena er enda gríðarlega vel skrifað og margslungið verksem er af mörgum talið eitt besta leikrit sem skrifað var á tuttugustu öld, mögnuð stúdía á samfélagi og manneskjum.
Ríkulegt heilafóður
Leikritið gerist inni í íbúð Jelenu, framhaldsskólakennara á miðjum aldri, sem býr við heldur fábreyttan kost. Allt í einu er dyrabjöllunni hringt og fjórir nemendur hennar standa fyrir utan með blóm og pakka og óska henni til hamingju með afmælið. Hún er hrærð og býður þeim inn en fljótlega kemur í ljós að þau hafa fleira í hyggju en að halda upp á afmæli. Í ýmsum skilningi býr Jelena í fátækt sinni yfir verðmætum, lykli að lífi og framtíð nemendanna sem þau verða að komast yfir með einum eða öðrum hætti.
Verkið veltir upp spurningum um samband kynslóða, mörk og ofbeldi, skuldir, ábyrgð og arfleifð þeirra sem standa vörð um hin gömlu gildi án þess þó að hafa náð að koma þeim til næstu kynslóða. Efnishyggjan og hugsjónirnar berjast um valdið yfir sannleikanum og í þeirri baráttu er engu eirt. Þetta leikrit vekur upp endalausar spurningar og vangaveltur og er í alla staði dásamlegt heilafóður. En það gengur líka nærri áhorfandanum og ég man að í fyrri uppfærslu var myrkur í salnum í nokkra stund áður en framkall hófst til að áhorfendur fengju tækifæri til að jafna sig.
Misráðin staðleysa
Eins og áður sagði er verkið skrifað og gerist í Sovíetríkjunum og 1991 var það nánast táknmynd þess sem gerist þegar strúktúrar, gildi og samfélag fellur og enginn veit hvað kemur í staðinn. Unga fólkið sem heimsækir Jelenu er reitt og vonsvikið með heiminn sem bíður þess en líka tilbúið til að takast á við nýja tíma, endurskrifa reglurnar og endurskilgreina siðferðið, fylla upp í tómið sem verður til þegar gamli heimurinn bregst.
Nú 30 árum síðar vitum við hvað kom í staðinn fyrir Sovíetríkin og einmitt þessvegna hefði verkið alveg getað átt sér stað í Rússlandi nútímans. Eða Íslandi nútímans eða á einhverjum raunverulegum stað. Í þessari uppfærslu er hinsvegar ákveðið að sneiða hjá því að festa verkið í stað eða tíma og að mínu mati er það misráðið. Verk sem gerast á ákveðnum stað og tíma geta haft almenna vísun langt út fyrir sig sem áhorfendur finna yfirleitt fljótt. Þegar verkið er hinsvegar ekki stað- eða tímasett nema í óskilgreindum nútíma verður nándin minni og raunveruleikatengingin minni líka, verkið verður meira eins og dæmisaga.
Áhrifamiklir valdaleikir
Það breytir því þó ekki að sýning Borgarleikhússins í leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur er áhrifamikil og situr í áhorfandanum. Og er þar helst að þakka leik og samleik þeirra sem á sviðinu standa og þeim valdaleikjum og valdskiptum sem þar fara fram.
Aron Már Ólafsson lék Valda og var bæði ótrúlega andstyggilegur og óskemmtilega aðlaðandi á sviðinu. Valdi hefur afneitað öllu siðferði í krafti einstaklingshyggjunnar, er siðblindur og stoltur af því. Staða Arons sjálfs sem áhrifavalds á samfélagsmiðlum gerir skráningu Valda á atburðunum með símanum sínum bæði táknræna og ógnvekjandi. Þuríður Blær var sannfærandi og áhrifamikil í hlutverki Lilju, einu stelpunnar í hópnum og jafnframt þeirrar sem þekkir skort best á eigin skinni. Hún beitir því valdi sem henni er gefið, æsku og þokka til að reyna að komast úr aðstæðum sínum en verður að endanum að lúta hlutskipti sínu.
Haraldur Ari Stefánsson lék Pétur sem dreymir um að verða bókmenntafræðingur og vantar bara herslumuninn upp á að ná markmiðum sínum. Verkið hverfist í raun um hans þarfir fyrst og fremst og hvernig hann með tækifærismennsku hins huglausa er tilbúinn til að selja flest prinsipp og líta framhjá restinni. Haraldur Ari kom þessum eiginleikum vel til skila í hlutverki sem er að mörgu leyti margslungnara en hin.
Viktor, sem langar að verða bóndi en stefnir hraðbyri í að verða alkóhólisti fyrst, var skemmtilega dreginn upp af Sigurði Þór Óskarssyni sem átti auðvelt með að vekja bæði hlátur og samúð enda er Viktor þrátt fyrir allt kannski heilsteyptastur af persónunum. Jelenu sjálfa lék Halldóra Geirharðsdóttir. Halldóra hefur undanfarin ár nánast orðið táknmynd sterkra íslenskra kvenna, bæði á leiksviðinu og utan þess, að er kannski þessvegna sem aðeins skorti á trúverðugleika þess að hún gæti nokkurntíma orðið undir í baráttu af því tagi sem háð er í verkinu, til þess var þessi Jelena of sterk.
Hún líður líka fyrir tíma – og staðleysu þessarar uppfærslu af því að ef við vitum ekki hvar og hvenær verkið á að gerast þá vitum við heldur ekki fyrir hvaða gildi Jelena stendur og hvar hún hefur brugðist, nemendum sínum og sjálfri sér. Hún hefur sannarlega ekki gengist efnishyggjunni á hönd og allt það sem við sjáum af hennar líferni bendir til þess að hún sé siðleg, sönn og heil. Þessi staðleysa einfaldar öll átökin í verkinu, krakkarnir verða þá bara vond, dekruð og veruleikafirrt í stað þess að vera í viðbragði við samfélagið sem ól þau upp og hlutgerist í Jelenu. Þeirra stærsti galli og synd er sú að þau eru uppnumin af efnis- og einstaklingshyggju en það er mjög greinilegt allt verkið í gegn að það var ekki Jelena sem kenndi þeim hana. Og ef Jelena stendur ekki fyrir neitt nema það að vera eldri og kennari þá er uppreisn krakkanna og barátta þeirra fyrir framtíð sinni ófókuseruð og óraunveruleg.
Þarna vantar nauðsynlega vídd, eitthvað til að halda í og miða við. Þá má nefna að nöfn krakkanna eru íslenskuð en Jelena heitir enn sínu rússneska nafni sem gerir samhengið líka skrýtið og býr til aukavídd, er kennarinn rússnesk? Jafnvel innflytjandi og sem slík í veikari valdastöðu gagnvart ungmennunum? Eða var bara mikilvægt að verkið héti áfram Kæra Jelena á íslensku þó það hefði í innra samhengi uppsetningarinnar kannski átt að heita kæra Helena eða kæra Elín?
Hefði mátt vinna betur með nándina
Ég var ekki hrifin af búningum Filippíu Elíasdóttur sem undirstrika enn stað- og tímaleysu sýningarinnar og fannst þeir á köflum of ljótir eða skrýtnir til að vera sannfærandi og auka þannig enn á fjarlægð milli heims sýningarinnar og áhorfenda. Sama má segja um leikmyndina, íbúð Jelenu, sem var of samtíningsleg til að sannfærandi væri.
Áhorfendur sitja í kringum sviðið og eru því nánast inni í íbúðinni. Það er skiljanleg ákvörðun leikstjóra til að skapa nánd en gerir það að verkum að einhverjir áhorfendur missa þá alltaf af þýðingarmiklum svipbrigðum og viðbrögðum leikaranna og þar með af undirbyggingu persónanna. Þegar leikarar eru svona nálægt áhorfendum, og raunar alltaf að mínu mati, þarf að fara varlega með hróp og öskur og nándin við sviðið býður upp á að nota röddina á blæbrigðaríkan hátt. Það mátti alveg vinna meira með það í þessari sýningu og nándin bauð í raun kjöraðstæður til þess.
Að öllu þessu sögðu er Kæra Jelena enn sem fyrr gríðarlega áhrifamikið verk sem á erindi við samtímann á mörgum plönum og þó ég sé ósammála ýmsum leikstjórnarákvörðunum standa verkið og leikurinn hiklaust fyrir sínu. Stundum er minningin um áhrifamikla listviðburði of dýrmæt til að menga hana með endurtekningu en í þessu tilfelli mæli ég með því að þau sem urðu fyrir áhrifum af Kæru Jelenu árið 1991 láti þessa uppfærslu ekki framhjá sér fara.