Louisu Matthíasdóttur minnst í Höfða

20.02.2017 - 17:31
Öld er liðin frá fæðingu Louisu Matthíasdóttur, sem stendur fremst meðal jafningja málaralistarinnar. Lengst af ævi sinni bjó hún erlendis, en í Höfða bjó hún frá átta ára aldri og þar til hún flutti til Danmerkur og hóf sitt listnám 17 ára gömul. Þar var í dag afhjúpað minnismerki henni til heiðurs. Meðal gesta voru Jón Proppé, listheimspekingur, og Temma Bell, dóttir Louisu.

„Hún kom oft heim og seinna eignaðist hún íbúð hér í bænum og kom og málaði, þannig að það er til mikið af myndum af umhverfinu hér í Reykjavík,“ segir Jón Proppé, sem undirbýr nú stóra sýningu um myndlistarkonuna sem opnuð verður á Kjarvalsstöðum í maí. 

„Þekktustu Íslandsmyndir hennar eru hins vegar myndir sem hún málaði í Bandaríkjunum, meira eða minna eftir minni eða skissum, og þær eru mjög sérstakar. Það er kannski það sem Íslendingar þekkja best af hennar myndlist, það er þessi sérstaka sýn sem hún hafði á landið. Hún málaði þetta allt öðruvísi en þeir landslagsmálarar sem höfðu búið hér alla ævi.“

Kannski var það heimþráin sem kveikti áhuga Louisu á náttúru Íslands og minningin sótti á hana. Louisa giftist bandaríska myndlistarmanninum Leland Bell og saman áttu þau dótturina Temmu Bell. Hún hefur búið í Bandaríkjunum alla ævi, en heimsótti Ísland reglulega ásamt móður sinni og lítur á Ísland sem sitt annað heimili. 

Louisa í vinnustofu sinni í New York. Brot úr myndinni „Louisa Matthíasdóttir: Skáld hlutanna, málari minninganna“, síðan 1986.

Temma var stödd í Höfða í hádeginu í dag. „Hún talaði alltaf íslensku við mig,“ segir hún og ítrekar að sér hafi alltaf liðið eins og Íslendingi líka. Hingað hefur hún komið margoft og dvalið í lengri og skemmri tíma og eitt af því sem heillar hana í hvert sinn er Esjan. Temma er sjálf listmálari, líkt og foreldrar hennar, og um tíma málaði hún Esjuna daglega. Fjölskyldan á íbúð sem hafði útsýni yfir fjallið, en nú byrgja háar byggingar henni sýn. Temma lét það þó ekki stoppa sig, heldur stillti sér upp með trönurnar við bensínstöð í nágrenninu.

Hugmyndin um Temmu Bell, dóttur Louisu Matthíasdóttur, með trönurnar við bensínstöðina minnir á mynd af þeim stöllum Louisu og Nínu Tryggvadóttur, sem frægar voru fyrir að vera á eilífum þönum út um borg og bý í leit að myndefni. 

Og þar sem borgin rís og skyggir á landslagið verður til nýtt myndefni, götumyndir og hús - og inni í húsunum, jafnt sem uta þeirra, mannlíf - allt þetta setti mark sitt á striga Louisu Matthíasdóttur og myndir dóttur hennar bera þess merki líka. 

 

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi