Íslendingar losa að meðaltali nær tvöfalt meira en íbúar Evrópusambandsríkja af gróðurhúsaloftegundum út í andrúmsloftið á ári miðað við höfðatölu. Þetta kemur fram í þáttunum Hvað höfum við gert?

Íslendingar losa að meðaltali um 14 tonn af koltvíóxíði á íbúa út í andrúmsloftið á ári. En hvað skýrir þessa miklu losun hér á landi? Sævar Helgi Bragason, umsjónarmaður þáttaraðarinnar, segir það samspil margra þátta. „Það er að mörgu leyti neyslan okkar en stóriðja losar auðvitað líka rosa mikið. Svo eru það allir bílanir okkar, sem losa um það bil milljón tonn á ári af gróðurhúsalofttegundum, sem er svipað og stóriðjan er að losa,“ segir Sævar Helgi og bætir við að Evrópubúar séu mun duglegri við að nota almenningssamgöngur, hjól og að ganga á milli staða.

En skiptir það einhverju máli í stóra samhenginu hvað við gerum á Íslandi?

„Ef við ætlum að leysa þessi vandamál, sem framtíðin fyrst og fremst kemur til með að glíma við þó við séum byrjuð að súpa seyðið af því núna, þá verða bara allir að taka höndum saman. Sama hvort þeir eru á hinu ríka Íslandi, fáir þar, eða í fjölmennustu ríkjum heims,“ segir Sævar Helgi. 

Tíðindi af loftslagsmálum draga oftast upp mjög dökka mynd. Sævar Helgi segir að sér hafi oft liðið bölvanlega við gerð þáttanna. „Framtíðin lítur ekkert rosalega vel út þannig séð. Nema þegar ég sé börn heimsins rísa upp og skrópa í skólanum til þess að  mótmæla aðgerðaleysi, þá fyllist ég mikilli bjartsýni. Mér þykir leitt að segja það en ég hef ekkert rosalega mikla trú á fullorðna fólkinu sem er núna uppi en ég hef bullandi trú á unga, efnilega fólkinu sem er að koma fram. Láta í sér heyra og biðja okkur fullorðna fólkið um að gera framtíðina sína frábæra.“

Þættirnir eru sýndir á RÚV og fyrsti þáttur er á dagskrá í kvöld.