Hellinum Arnarkeri var lokað í dag vegna of mikils ágangs ferðamanna. Hellirinn liggur undir skemmdum og tölverð slysahætta er í umhverfi hans.

Arnarker er stór og fallegur hellir, um sjö kílómetra norðvestur af Þorlákshöfn. Hellirinn hefur notið mikilla vinsælda á meðal ferðamanna á undanförnum árum, svo mikilla að nú hefur verið ákveðið að loka honum.

Fyrir tæpum tuttugu árum settu félagar í Hellarannsóknafélagi Íslands stiga niður í hellinn, svo hægt væri að fara ofan í hann með tiltölulega auðveldum hætti. Í dag var stiginn hins vegar fjarlægður og aðgengi að hellinum þar með lokað.

„Fyrstu árin voru einhverjir tugir gesta sem skrifuðu sig í gestabók en nú hefur ásóknin meira en hundraðfaldast. Þannig að það eru þúsundir sem koma hérna. Og umhverfið þolir bara ekki þennan ágang,“ segir Árni B. Stefánsson, formaður verndunarnefndar Hellarannsóknafélags Íslands.

Æðri máttarvöld

Árni bendir á að 400 metra löng gönguleið að hellinum sé orðin eitt moldarflag, auk þess sem allt umhverfi hellisins og akvegurinn að honum liggi undir skemmdum.

„Niðurfallið er úttroðið, allur gróður er uppurinn og það verður rosalega hált hérna í bleytu, þetta er hættulegt, svo berst drullan af skóm fólks inn eftir hellinum. Þetta er bara sóðaskapur og hætta. Og ég vil sjá gróðurinn jafna sig. Og það þarf að gera eitthvað allt annað en þetta.“

Hellirinn er á landi sem er í eigu Icelandic Water Holdings sem rekur átöppunarverksmiðju skammt frá. Stiginn var fjarlægður í samráði við fyrirtækið. Árni segir nauðsynlegt að ráðast í miklar framkvæmdir svo hægt sé að opna hellinn að nýju.

„Sveitarfélagið Ölfus er sómakært sveitarfélag en það á ekki tugi milljóna í þetta, eða mannskap. Hellarannsóknafélagið er lítið félag, við getum það ekki heldur. Það eru þá bara æðri máttarvöld, ferðamálayfirvöld eða hagsmunafélag ferðamanna, sem er ekki til.“

Kæmi til greina að rukka aðgangseyri og nota hann til þess að laga þetta?

„Annað hvort er þetta greitt af almannafé og í sjálfboðavinnu eða þá að þetta er tekið inn með aðgangseyri á einhvern hátt,“ segir Árni.