Stjórnvöld eru að leggja lokahönd á tillögur sínar vegna kjarasamningaviðræðna. Þær verða kynntar í vikunni. Forseti Alþýðusambands Íslands segir sambandið eiga eftir að fá gleggri mynd hjá stjórnvöldum um hvað þau ætli að leggja af mörkum.
Ráðherrafundir voru fyrirhugaðir síðdegis til þess að fara yfir málin. Upp úr klukkan fjögur var fundur fjármálaráðherra með ráðuneytisstjóra og embættismönnum í Ráðherrabústaðnum.
152 kjarasamningar losna í mars. Þau félög sem þegar eru komin til ríkissáttasemjara hafa hafnað tilboð Samtaka atvinnulífsins og SA hafnaði gagntilboði þeirra.
Starfsgreinasambandið er komið í stellingar. Í því eru 57 þúsund manns og hefur viðræðunefnd sambandsins nú fengið umboð til að vísa kjaradeilu þeirra við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.
Samninganefnd ASÍ þ.e. formenn landssambanda, stærstu félaga, forseti og varaforsetar ASÍ fóru yfir stöðuna í morgun.
„Það hefur verið þannig að undanfarin ár, þá höfum við verið að semja um kjarahækkanir sem hafa svo verið teknar annars staðar frá þannig að það var alveg augljóst að það þyrfti aðkomu stjórnvalda að þessum kjarasamningum,“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ.
Hún segir stjórnvöld hafa þegar sagt frá ýmsu sem ætlað er að liðka fyrir viðræðunum eins og ýmsu í húsnæðismálum og félagslegum undirboðum. Ekkert hefur enn komið fram um skattabreytingar.
„Við eigum eftir að fá aðeins fyllri mynd um það hvað stjórnvöld ætla að leggja af mörkum til þess að bæta hér hag fólks.“
Drífa Snædal forseti ASÍ.
RÚV – RÚV - Guðmundur Bergkvist