Aðskilja verður akstursstefnur á þeim kafla Reykjanesbrautar þar sem banaslys varð í gærmorgun, að mati lögreglu. Samgönguráðherra segir að til greina komi að nýta veggjöld til að flýta framkvæmdum á kaflanum. Fjölmörg alvarleg slys hafa orðið þar á undanförnum árum.
Pólskur ríkisborgari á fertugsaldri lést í umferðarslysi á Reykjanesbraut í Hafnarfirði í gærmorgun. Hann var farþegi í fólksbíl sem lenti í árekstri við jeppling. Ökumaður fólksbílsins hefur verið úrskurðaður í farbann til 23. nóvember, en lögregla gefur ekki upp ástæðu farbannsins. Slysið varð á þeim kafla Reykjanesbrautarinnar, þar sem ekki hefur verið lokið við tvöföldun og þar sem akstursleiðir eru ekki aðskildar.
„Við eigum þá von og ósk að sem fyrst verði akstursstefnur aðskildar á þessum vegkafla,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Þar sem hámarkshraði er 80 km/klst og um stofnbraut að ræða finnst okkur mikilvægt að það sé reynt sem mest og best að aðskilja akstursstefnur því að ef ökumönnum verður á mistök, þeir eru í annarlegu ástandi eða hver sem ástæðan er hverju sinni þegar þeir missa stjórn á ökutækinu, þá séu aðskildar akstursstefnur sem geta dregið úr líkum á slysförum, allavega framanákeyrslum,“ segir Guðbrandur.
„Það er verið að bregðast við“
Alls á eftir að tvöfalda og aðskilja akstursstefnur á tæplega níu kílómetra kafla Reykjanesbrautarinnar á þessu svæði. Samkvæmt samgönguáætlun á að tvöfalda og aðskilja akstursstefnur á 3,3 kílómetra frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi á næstu tveimur árum, en banaslysið í gær varð á þeim kafla. Áætlaður kostnaður er 2,4 milljarðar króna. Hinir 5,5 kílómetrarnir, frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni, verða ekki tvöfaldaðir fyrr en á árunum 2024 til 2028. Kostnaður við það er áætlaður 3,3 milljarðar króna. Árið 2020 stendur þó til að aðskilja akstursstefnur á þeim kafla með vegriði, fyrir um 300 milljónir.
„Þannig að það er verið að bregðast við,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra. „En það verður ekki gert á einum degi eða einni viku þannig að þess vegna verðum við bara að vona það besta og að menn fari eins varlega og hægt er í umferðinni.“
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir að lengi hafi verið þrýst á yfirvöld að flýta tvöföldun. En gætu stjórnvöld flýtt því ferli?
„Það er það sem er til skoðunar, hvort við getum tekið eitthvað af þessum framkvæmdum út úr samgönguáætlun og fjármagnað með öðrum hætti,“ segir Sigurður Ingi. „Og þá myndu þessar framkvæmdir færast framar í röðinni.“
Þegar þú segir fjármagna með öðrum hætti, áttu þá við veggjöld?
„Þá erum við að tala um einhvers konar gjaldtöku. Það er starfshópur að störfum sem skilar af sér um áramót og ég er með á þingmálaskránni í mars að leggja fram slíkar hugmyndir. Og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst menn vera miklu opnari fyrir þeirri leið nú en oft áður.“
Samkvæmt upplýsingum á vef Samgöngustofu urðu tvö banaslys og 19 alvarleg slys á þessum kafla á árunum frá 2007 til 2017, sem Guðbrandur segir að sé alltof mikið.
„Því miður gerast of mörg slys hérna, já.“