Sigurður Kristinsson, siðfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri segir að það sé full ástæða til að hefja lögreglurannsókn á Klausturmálinu. Sterkar vísbendingar séu um það í frásögn Gunnars Braga Sveinssonar að lög hafi verið brotin við skipan sendiherra. Afsökunarbeiðni forseta Alþingis sé eitt af mörgu sem hafi þurft að koma til að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Stjórnvöld ættu að setja í forgang stefnumótun í siðferðismálum.
Forseti Alþingis reynir að bjarga því sem bjargað verður
Sigurður var í starfshópi um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu sem skilaði skýrslu til forsætisráðherra í september.
Forsætisnefnd Alþingis ákvað í dag að hefja skoðun á Klausturmálinu sem mögulegs siðabrotamáls. Steingrímur J Sigfússon, forseti Alþingis kynnti það við upphaf þingfundar í dag og um leið bað hann þingmenn sem nefndir voru í upptökunum, aðra þingmenn en þá sem í hlut áttu að máli, fjölskyldur þeirra, og þjóðina alla afsökunar á málinu. Sigurður segir að það hafi verið ánægjulegt að forseti Alþingis hafi beðist afsökunar.
„Því að þetta snýst um marga hluti en það sem mér er efst í huga er bara traust og virðing til Alþingis. Og þar með er það að forseti Alþingis skuli fara fram með afstökunarbeiðni finnst mér í rauninni bara viðeigandi af því að þessar upplýsingar og þessi leki eru mjög alvarleg aðför að trausti almennings til stjórnmála í landinu og sérstaklega þá Alþingi og alþingismanna þarna voru 10 % alþingismanna á upptökunum. Mér finnst bara fullt tilefni til þess og þetta er eitt af mörgum atriðum sem þurfa að koma til að reyna að bjarga því sem bjargað verður.“
Hlutverk siðanefndar sé að gefa forsætisnefnd ráð og að gefa álit sitt á því hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum siðanefndarinnar. Nefndin fari yfir öll gögn og meintir brotamenn njóti andmælaréttar líka.
Hvað gerist ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að þeir hafi brotið siðareglur?
„Það hefur í raun og veru ekki aðrar afleiðinar en þær að forsætisnefnd fær það álit frá þessari ráðgefandi siðanefnd. Ráðgjöf siðanefndar felst að hluta til í því að svara þessari spurningu væntanlega koma með einhverskonar leiðbeiningu um framhaldið.“
Menn séu þó sammála því að ekki er um boðvald að ræða né vinnunveitendavald og þvð ekki hægt að ráðskast með það hvort fólk sitji áfram eða segi af sér. Það verður því í höndum hvers og eins þingmanns sem á það við sína umbjóðendur.
Full ástæða til að hefja lögreglurannsókn
En ef lög hafa verið brotin? „Sko það er náttúrlega möguleiki að það hafi verið brotin lög þarna.“
„Mér finnst full ástæða til að hefja rannsókn á því og ég held að það þurfi enga tilvísun frá forsætisnefnd til þess að það verði gert vegna þess að skv. lögum um meðferð sakamála frá 2008 þá á lögregla hvenær sem þess er þörf að hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki.“
Í 128 gr. almennra hegningarlaga er refsivert að opinber starfsmaður, alþingismaður eða gerðarmaður heimti eða láti lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi sem hann á ekki tilkall til í sambandi við framkvæmd starfa síns.
„Og þarna er sterk vísbending í frásögn Gunnars Braga og svo staðfesting Sigmundar á því að þessi grein hafi bara hreinlega verið brotin í því starfi ráðherra að skipa sendiherra og ætlist þá til umbunar í staðin.“
Of heyrist sagt að ef atburður af þessu tagi hafi átt sér stað erlendis þá væru umræddir þingmenn búnir að segja af sér.
Íslendingar komnir styttra á veg en nágrannaþjóðirnar
Eru Íslendingar komnir styttra á veg í þessum siðaferðismálum heldur en nágrannaþjóðirnar? „Já ég held að það séu nú allir sem hafa kynnt sér þessi mál sammála um það og það er auðvelt að benda á dæmi, nýleg dæmi frá nágrannalöndunum svona því til staðfestingar. Það eru nú yfir 20 ár síðan Mona Salin sagði af sér ráðherraembætti í Svíþjóð. Og það var svona ákveðið viðmið. Og þar var hafin sakamálarannsókn líka þó svo hún hafi leitt í ljós -hreinsað hana af lögbrotum.“
Bjarni Harðarson er einn af fáum hér á landi sem sagði af sér þingmennsku.
„Það var ekki þannig að margir fylgdu hans fordæmi en hans fordæmi er þó alla vega komið. Og maður heyrir að fólk dáist að honum fyrir að gera þetta. Ég held að í huga margra og þegar menn eru að íhuga traust til Alþingis og alþingismanna að þá sé það þannig að ef menn hafi það hugarfar sem hann sýndi þarna að bregðast við trúnaðarbroti með því bara að segja ég hef ekki traustið til að sinna þessu hlutverki áfram að það sé það sem kallað er eftir. Þannig að það sem þarf að gerast er að fleiri flylgi þessu fordæmi.“
Stjórnvöld setji heilindaramma í forgang
Í skýrslu starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu séu 25 tillögur um hvað þurfi að gera til að bæta ástandið í þessum málum hér á landi.
„Fyrsta tillagan er um að stjórnvöld setji svokallaðan heilindaramma sem er skýr stefnumótun og í smáatriðum um þessi atriði og ég held að stjórnvöld verði að setja það mál í algeran forgang út af því að innan þess ramma eru síðan margskonar umbætur á lögum og siðirnir og hugarfarið fylgir með.“