Lög um fóstureyðingar hafa ekki verið endurskoðuð efnislega frá því þau voru samþykkt árið 1975. Beiðni kvenna um slíka aðgerð hefur ekki verið synjað í mörg ár þó að það sé hægt og sjúkrasamlög, sem samkvæmt lögunum, eiga að taka þátt í kostnaði vegna getnaðarvarna, eru ekki lengur til.
Sænska kerfið virki vel
Helga Sól Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á kvennadeild Landspítalans, telur heppilegt að breyta löggjöfinni. „Ég til dæmis vann í Svíþjóð og þar er fóstureyðing leyfileg og frjáls upp að 12 viku og mér finnst það kerfi virka mjög vel og þeir hafa ekki komið verr út heldur en við,“ segir hún. Að hennar mati eru lögin barn síns tíma og hún segir að félagsráðgjafar sem koma að þessu ferli myndu vilja að fóstureyðing væri framkvæmd að ósk kvenna, þær gætu óskað eftir henni og þyrftu ekki að útskýra það mikið nánar.
Ótti standi í vegi fyrir endurskoðun
Það er hægt að synja konum á grundvelli laganna ef ástæður þeirra fyrir fóstureyðingu teljast ekki fullnægjandi. Ef viðhorf í samfélaginu breytast til muna væri til dæmis hægt að halda því fram að það að kona vilji ekki eignast barn teljist ekki nægilega góð ástæða fyrir fóstureyðingu. Sumir óttast bakslag og benda á umræðu um lögmæti fóstureyðinga sem er áberandi í Bandaríkjunum. Þær eru bannaðar á Írlandi og mjög þröng löggjöf um þær í Færeyjum. Þá hefur því verið haldið fram við Spegilinn að ein ástæðan fyrir því að lögin hafi ekki verið endurskoðuð sé hugsanlega ótti, ótti við að löggjöfin yrði hert og réttur til fóstureyðinga minnkaður.
„Vil ekki sjá það gerast“
Helga Sól segir að ekki hafi komið til synjana hérlendis í mörg ár og hún vilji ekki að til þeirra komi. „Ég vil ekki sjá það gerast, algjörlega vil ég það ekki. Þannig að í raun og veru fyndist mér betra að lögunum yrði breytt þannig að konurnar hefðu þennan rétt. Þetta væri þeirra ákvörðun sem þær bæru ábyrgð á.“ Hún segir konurnar sjálfar best til þess fallnar að taka ákvörðunina og að meginhlutverk félagsráðgjafa sé að styðja þær í þeirri ákvörðun sem þær taka. Helga segir orðræðuna í Bandaríkjunum áhyggjuefni, þó raddirnar séu háværar sé hópurinn þó ekki sérlega stór og að á Spáni hafi ráðherra sem vildi herða fóstureyðingalöggjöfina þurft að segja af sér. „Það var ekki meiri vilji í samfélaginu en svo, til að breyta löggjöfinni,“ segir hún.
16 ára stelpur skilja ekki allar hugtakið ómegð
Eins og fjallað var um í Speglinum í gær þurfa konur að gefa upp ástæður fyrir því hvers vegna þær sækja um fóstureyðingu og fylla út sérstakt eyðublað. Félagslegar ástæður fyrir fóstureyðingu geta samkvæmt eyðublaðinu verið að stutt sé liðið frá síðasta barnsburði, æska eða þroskaleysi, ómegð eða önnur jafnvæg ástæða. Helgu finnst ekki þörf á því að konurnar rökstyðji val sitt fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Reiturinn sé frekar fyrir þær sjálfar. Það er alltaf gott fyrir þær að hafa hugsað málið vel og vera með sínar ákvarðanir á tæru og prívat og persónulega nota ég þennan reit meira fyrir þær heldur en fyrir okkur, þetta er meira fyrir þær að setja niður á blað þeirra rök ef þær vilja. Ég er ekki mjög hörð á því að segja, þú verður að telja upp allt og þessi ástæða er gild og þessi ástæða er ekki gild. Það er þeirra ástæða sem gildir og hún getur verið að þær vilji ekki barn. Mér finnst það fyllilega góð ástæða,“ segir Helga Sól. Þá segir hún að það skilji ekki allar 16 ára stelpur hugtakið ómegð. Hún sé bundin lögunum, sem kveða á um að formið sé fyllt út, en hún reyni að vinna á þann hátt sem kemur sér best fyrir konurnar.
Sjúkrasamlög niðurgreiði getnaðarvarnir
Í fyrra fóru fram tæplega þúsund aðgerðir hér á landi og 70% þeirra voru framkvæmdar með lyfjum. Fjöldinn hefur lítið breyst síðastliðin tíu ár. Í fimmtu grein laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi, kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar segir: Unnið skal að því að auðvelda almenningi útvegun getnaðarvarna, meðal annars með því, að sjúkrasamlög taki þátt í kostnaði þeirra. Sjúkrasamlög eru að vísu ekki til lengur en Helga vill samt sem áður að staðið verði við inntak laganna. „Það þýðir ekki að segja að við séum með of margar fóstureyðingar ef við erum ekki tilbúin að vinna vinnuna. Fóstureyðingar eru dýrar, þær eru ekkert ókeypis fyrir samfélagið þrátt fyrir að þær séu ókeypis fyrir konuna og mér finnst sjálfsagt að þær séu það. Getnaðarvarnir sem valda því að þær þurfa ekki að koma til okkar, þær eru dýrar og ekki niðurgreiddar og við skulum athuga það að konurnar, 45% þeirra sem koma til okkar er á aldrinum undir 24 ára og þetta er aldurinn sem hefur ekki mikið á milli handanna. Þetta er aldurinn sem er líka aktívastur og frjósamastur.“
„Ég veit alveg hvernig er hægt að fækka fóstureyðingum“
Helga Sól segist vita upp á hár hvernig megi fækka fóstureyðingum. „Við höfum tæki, ég veit alveg hvernig við getum fækkað fóstureyðingum en það þarf í raun og veru almennilega og hugrakka stjórn til að fara í þá vinnu með því að niðurgreiða mikið langtíma getnaðarvarnir eða hreinlega hafa þær ókeypis fyrir þennan aldur.“ Helga á þar við getnaðarvarnir á borð við staf og lykkju en erlendar rannsóknir hafa sýnt að þær hafi mun meira að segja þegar kemur að fækkun fóstureyðinga en smokkar og pillan. Hún segir heilbrigðisstarfsfólk hafa farið þess á leit við stjórnvöld að þau niðurgreiði þessar getnaðarvarnir. Þá hafi verið brugðist við með því að afnema virðisaukaskatt á smokkum. Fóstureyðingum hafi hins vegar ekkert fækkað í kjölfar þess.
Kannski ekki alltaf þörf á félagsráðgjöfum
Hún segir allt ferlið vera í endurskoðun, það sé nefnd sem vinni að henni. „Það eru margir þættir í þessu ferli þar sem við hugsum, guð minn góður, þetta er of mikið,“ segir hún. Þegar hún er spurð að því hvaða þættir þetta séu segir hún: „Til dæmis það að konurnar þurfi að hringja og panta tíma, þær þurfa mögulega að tala við félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðing og lækni. Hugsanlega er bara nóg að tala við tvo. Kannski þurfa þær ekki að tala við félagsráðgjafa - og ég er félagsráðgjafi.“