Tímamótasamkomulag í loftslagsmálum náðist í kvöld á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París. Samningurinn var samþykktur einróma, með atkvæðum 195 þjóða, laust fyrir klukkan hálf sjö að íslenskum tíma. Mikil fagnaðarlæti brutust út í fundarsalnum þegar ljóst var að samkomulagið væri í höfn. Fulltrúar margra þjóða táruðust af gleði yfir því að samkomulag hefði náðst.
Það var Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, sem lýsti því yfir að loftslagssamningurinn hefði verið samþykktur samhljóða. - Ég lít yfir salinn og sé að allir eru jákvæðir, enginn virðist ætla að hreyfa andmælum, sagði Fabius og barði með hamri sínum í borðið til marks um að allir væru nýja samningnum samþykkir.