Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði höfuðáherslu á mannréttindi og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði að loftslagsbreytingar væru að verða ein helsta ógn við heimsfrið og skipulag.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var sett í 73. sinn á miðvikudag og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpaði þingið í gærkvöld. Hann sagði Sameinuðu þjóðirnar gegna stóru hlutverki við að stuðla að friði og framþróun en væri ógnað af ýmsum öflum innan stjórnmálanna sem veiti einföld svör við flóknum spurningum og hafi í hótunum í stað þess að vinna að sameiginlegum markmiðum sem hagnist öllum, og vísaði þar meðal annars til frjálsra viðskipta. Þá sé mikilvægt að grípa strax til aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Engin vafi sé í hans huga að þær séu að verða ein mesta ógn við frið, öryggi og framþróun á heiminum. 

Vinna saman að rannsóknum á mænuskaða

Guðlaugur Þór fór um víðan völl í ræðunni. Hann sagði kynjajafnrétti lykilinn að sjálfbærri þróun, ræddi flóttamannavandann, norðurslóðir og átökin í Sýrlandi og Jemen. Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu á næsta ári og Norðurlöndin ætli að vinna saman að rannsóknum á taugasjúkdómum, sér í lagi mænuskaða. Guðlaugur Þór sagðist stoltur af því að Ísland hefði tekið sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á árinu, í fyrsta sinn eftir að hafa verið kosið í ráðið í sérstökum aukakosningum í sumar. Ráðið afgreiddi 23 ályktanir í gær og fyrradag, Mest áhersla var á jafnréttismálum og að draga þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð á hræðilegum glæpum, bæði í Mjanmar og Jemen.

„Átök um hvernig ætti að nálgast stöðuna í Mjanmar“

Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í ráðinu, segir að ályktun um mannréttindaástandið í Mjanmar, hafi líklega borið hæst, en þarlend yfirvöld hafa verið sökuð um þjóðarmorð á Róhingjum. „Það voru talsverð átök um hvernig ætti að nálgast stöðuna í Mjanmar og Jemen svo var að sjálfsögðu tekist á um jafnréttismál og var í þetta sinn líka. Okkur var ljóst að senda skýr skilaboð um hegðun stjórnvalda í Mjanmar og líka að sjálfsögðu Sáda og annarra í Jemen, hegðun þeirra væri óásættanleg og við studdum þar sérstaklega að settur væri upp mekanismi svipaður þeim sem settur hefur verið upp fyrir Sýrland þar sem gögnum og viðtölum við þolendur er safnað saman til að tryggja að þeir sem beri ábyrgð á glæpunum séu dregnir til ábyrgðar,“ segir Harald. 

Ímynd Íslands jákvæð og sterk

Fimm manns starfa í íslensku nefndinni í ráðinu og tveir fulltrúar frá utanríkisráðuneytinu tóku þátt í þessari fyrstu lotu. Harald segir að hún hafi tekist mjög vel og ástæða sé til að þakka þeim sem hafi lagt mikið á sig til að láta þetta ganga upp. Ísland geti lagt sitt af mörkum með þessum hætti og reynt að hafa áhrif, sér í lagi í er varðar, jafnréttismál og réttindi samkynhneigðra. „Við sjáum auðvitað hér líka eins og annars staðar í utanríkisráðuneytinu að ímynd Íslands er að verða mjög jákvæð og sterk og þar skiptir máli staða okkar í jafnréttismálum og mikilvægt fyrir okkur að svara, einnig umhverfismálum og svo framvegis og það er mikilvægt fyrir okkur að rækta þessa ímynd,“ segir Harald.