Tugir aurskriða hafa síðustu daga fallið á svæðinu frá Árskógsströnd austur í Aðaldal og enn er varað við hættu á skriðuföllum og krapaflóðum. Skriðurnar sjást einkar vel á loftmyndum sem teknar voru fyrir norðan í dag.

Rúm vika er nú liðin frá því fyrsta skriðan féll í þessari hrinu aurskriða á Norðurlandi. Síðasta stóra skriðan, sem vitað er um, féll í Vallafjalli í Bárðardal í gærkvöldi, skammt sunnan við bæinn Sandhauga. Hún átti upptök sín efst í fjallinu, féll í gegnum gamlan birkiskóg og rauf stórt skarð í fjallshlíðina.

Skriður hafa fallið víða en langmestu framhlaupin hafa verið í Kinnarfelli í Köldukinn. Þar hafa fallið að minnsta kosti fjórar aurskriður, ein þeirra langstærst. Hún rauf um 100 metra skarð í þjóðveginn og tók sundur raflínu. Þar var um kílómetra löngu svæði lokað fyrir allri umferð í fyrradag. Framhlaupin úr Kinnarfelli eru jarðfræðingum nokkur ráðgáta, því ekki er vitað til að þar hafi fallið skriður fyrr.