Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, segir að þar sem spítalinn hafi aldrei staðið frammi fyrir viðlíka áður; yfirvofandi verkfalli hjúkrunarfræðinga ofan á verkföll sem enn eru óleyst, þá sé erfitt að spá fyrir um áhrifin.

„En það er alveg ljóst að það yrðu mjög alvarleg og mikil áhrif af þessu verkfalli ef af verður,“ segir hún. 

Aðspurð hvort gengið sé of langt segir Sigríður stjórn sjúkrahússins hafa haft áhyggjur af því að erfitt sé að tryggja öryggi sjúklinga í verkfalli. „Og það verður aðeins erfiðara ef þetta bætist við. Þetta vissulega gengur býsna nærri öryggi sjúklinga ef til þessa kemur þannig að við viljum sjá þessu afstýrt.“

Sigríður segir gríðarlega mikilvægt að verkfalli hjúkrunarfræðinga verði afstýrt áður en til þess kemur og að þau verkföll sem eru í gangi verði leyst, og á þar við verkfall geislafræðinga, lífeindafræðinga og náttúrufræðinga sem staðið hefur í rúman mánuð. „En ég tel að æskilegasta leiðin til þess sé í gegnum samninga en ekki lagasetningu.“

Ríflega 2.100 hjúkrunarfræðingar leggja niður störf 27. maí ef ekki nást samningar fyrir þann tíma. Sigríður biðlar til deilenda og samningsaðila að ná samningum á þeim tveimur vikum sem séu til stefnu. „Það er tími og það er mikið í húfi.“