„Það er leyndarmál,“ segir Brynjólfur Þorsteinsson, nýr handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör, spurður um það hver hann sé, en bætir jafnframt við: „Ég er bara einhver náungi út í bæ sem var að klára ritlist og hef verið að skrifa dálítið lengi þó það sé flest ofan í skúffunni góðu.“ Brynjólfur las verðlaunaljóðið sitt, Gormánuð, í Víðsjá og sagði frá sjálfum sér.

Ljóðstafur Jóns úr Vör er viðurkenning sem Kópavogsbær heldur utan um og veitir einu sinni á ári og er kennd við Jón Jónsson úr Vör, rithöfund, ritstjóra, fornbóksala og fyrsta bæjarbókavörð Kópavogs. Að þessu sinni bárust 302 ljóð í samkeppnina og varð ljóð Brynjólfs hlutskarpast en það heitir Gormánuður. Dómnefnd sagði ljóðið draga fram „ís­lensk­an hvers­dag sem birtist dul­ar­full­ur og margræður, þar sem samruni nátt­úru og lík­ama mynd­ar óljós og áhuga­verð mörk milli heima.“

Annað sæti í samkeppninni hlaut Mar­grét Lóa Jóns­dótt­ir fyr­ir ljóðið Allt sem lif­ir deyr og þriðja sætið hlaut Elías Knörr fyr­ir ljóðið Sunnu­dög­um fækk­ar með sér­hverri messu! Auk þess hlutu sérstaka viðurkenningu Eyrún Ósk Jóns­dótt­ir, Dag­ur Hjart­ar­son, Arn­dís Þór­ar­ins­dótt­ir, Vil­hjálm­ur B. Braga­son, Hjört­ur Marteins­son og Björk Þorgríms­dótt­ir, en dóm­nefnd skipuðu þau Bjarni Bjarna­son formaður, Ásdís Óla­dótt­ir og Ásta Fann­ey Sig­urðardótt­ir.

Eins og pottur ofan af svölum

Brynjólfur segist meta það svo að nýtilkominn áhugi sinn á ljóðlistinni sé mögulega þroskamerki. „Það er erfitt að útskýra þetta, maður fær þetta bara í höfuðið eins og blómapott sem fellur ofan af svölum og jafnar sig ekki eftir það, hugsa ég.“ 

Bynjólfur segist mest hafa reynt við ritun smásagna og á víst tilbúið handrit af safni þeirra. „Það svarar enginn tölvupóstunum mínum sko,“ segir Brynjólfur hlægjandi, „en það fer kannski að breytast eftir þetta.“

Í Víðsjá var rætt við Brynjólf og þar las hann verðlaunaljóðið sem heitir Gormánuður. Víðsjá er á dagskrá Rásar 1 þriðjudaga til fimmtudaga kl. 16.05.