„Það er leyndarmál,“ segir Brynjólfur Þorsteinsson, nýr handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör, spurður um það hver hann sé, en bætir jafnframt við: „Ég er bara einhver náungi út í bæ sem var að klára ritlist og hef verið að skrifa dálítið lengi þó það sé flest ofan í skúffunni góðu.“ Brynjólfur las verðlaunaljóðið sitt, Gormánuð, í Víðsjá og sagði frá sjálfum sér.
Ljóðstafur Jóns úr Vör er viðurkenning sem Kópavogsbær heldur utan um og veitir einu sinni á ári og er kennd við Jón Jónsson úr Vör, rithöfund, ritstjóra, fornbóksala og fyrsta bæjarbókavörð Kópavogs. Að þessu sinni bárust 302 ljóð í samkeppnina og varð ljóð Brynjólfs hlutskarpast en það heitir Gormánuður. Dómnefnd sagði ljóðið draga fram „íslenskan hversdag sem birtist dularfullur og margræður, þar sem samruni náttúru og líkama myndar óljós og áhugaverð mörk milli heima.“
Annað sæti í samkeppninni hlaut Margrét Lóa Jónsdóttir fyrir ljóðið Allt sem lifir deyr og þriðja sætið hlaut Elías Knörr fyrir ljóðið Sunnudögum fækkar með sérhverri messu! Auk þess hlutu sérstaka viðurkenningu Eyrún Ósk Jónsdóttir, Dagur Hjartarson, Arndís Þórarinsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason, Hjörtur Marteinsson og Björk Þorgrímsdóttir, en dómnefnd skipuðu þau Bjarni Bjarnason formaður, Ásdís Óladóttir og Ásta Fanney Sigurðardóttir.
Eins og pottur ofan af svölum
Brynjólfur segist meta það svo að nýtilkominn áhugi sinn á ljóðlistinni sé mögulega þroskamerki. „Það er erfitt að útskýra þetta, maður fær þetta bara í höfuðið eins og blómapott sem fellur ofan af svölum og jafnar sig ekki eftir það, hugsa ég.“
Bynjólfur segist mest hafa reynt við ritun smásagna og á víst tilbúið handrit af safni þeirra. „Það svarar enginn tölvupóstunum mínum sko,“ segir Brynjólfur hlægjandi, „en það fer kannski að breytast eftir þetta.“
Í Víðsjá var rætt við Brynjólf og þar las hann verðlaunaljóðið sem heitir Gormánuður. Víðsjá er á dagskrá Rásar 1 þriðjudaga til fimmtudaga kl. 16.05.