„Ástin fer aldrei langt í skáldskap Steinunnar en í þessari nýju bók hefur ástin þroskast. Hún hefur náð nýrri sátt,“ segir Guðrún Baldvinsdóttir um nýjustu ljóðabók Steinunnar Sigurðardóttur.
Guðrún Baldvinsdóttir skrifar:
Að ljóði munt þú verða nefnist tíunda ljóðabók skáldsins Steinunnar Sigurðardóttur sem kom út núna fyrir jólin og virðist skrifuð í beinu framhaldi af síðustu ljóðabók hennar sem bar titilinn Af ljóði ertu komin. Titlarnir hanga augljóslega saman og kápurnar eru keimlíkar, báðar bláar með sömu leturgerðinni. Á fyrri bókinni mátti sjá rigningardropa á gleri – kunnugleg sýn árið um kring á Íslandi. Á nýju bókinni erum við komin út fyrir landsteinana enda má glitta í lestarteina svo langt sem augað eygir og hlýja birtu, þótt blá sé. Í ljóðunum erum við oftar fjarri íslenskri náttúru en áður, með sígræna trjátoppa fyrir augunum, stödd í lestarklefa á einhverri leið – eða engri.
Í þessari nýju bók kveður við örlítinn nýjan tón í ljóðum Steinunnar. Hringrásin er allsráðandi eins og áður, sem má finna í bæði náttúrunni, árstíðunum og lífi okkar. En undir niðri má sjá móta fyrir krossgötum eða tímamótum. Sólin er áberandi í ljóðunum, og sólarljóðin einkennast af von og jákvæðni. Upprisan er þar. En við sjáum líka sorgina og söknuðinn. Þetta tvennt fer sjaldan saman í ljóðunum heldur skiptast þessar tilfinningar á að taka ljóðin yfir.
Hringrásir lífsins
Ferðalagið er þráðurinn sem heldur ljóðunum í bókinni saman. Lífið er ferðalag en það er einnig undirbúningur fyrir eitthvað sem við vitum ekki hvað er, eða hvort er. Við erum stödd í eilífri lestarferð sem við viljum að endi aldrei. Ljóðmælandinn horfir út um gluggann og virðir fyrir sér náttúruna sem blasir við.
Ferðalagið tengist einnig inn í trúarleg stef sem má finna í ljóðum Steinunnar. Titill bókarinnar minnir okkur á hringrásina sem lífið er og vísar í Fyrstu Mósebók, setningar sem farið er með í jarðarförum; Af jörðu ertu kominn, að jörðu munt þú verða, af jörðu munt þú aftur upp rísa.
Bókinni er skipt upp í kafla og í fyrsta kaflanum „Upp upp mín uppgjöf“ má finna ljóð um gang lífsins, dauðann og það sem tekur við. Við erum síðan skemmtilega leidd þaðan og inn í kaflann „Upp upp mín upprisa“ sem hefst á viðeigandi hátt á ljóðunum „Páskadagsmorgunn 1“ og Páskadagsmorgunn 2“ sem endar svo:
Svona lokkandi er himininn.
Og sagt að við förum þangað -
að þar munum við hittast.
Við sem fórumst á mis á jörðu niðri
og við sem fórumst ekki á mis.
Líka við. (bls 19)
Ó-íslenskt landslag
Náttúran er áberandi í ljóðum Steinunnar og það er skemmtilegt að sjá hvernig ó-íslensk náttúra birtist í ljóðunum. Við tölum oft um að veðrið og náttúran sé órjúfanlegur hluti af íslensku máli en hér yrkir Steinunn um evrópskt landslag og við ferðumst með henni á meðan við virðum hana fyrir okkur, eins og í upphafi ljóðsins „Kínversk tvenna“:
Í hljóðlausu farartæki
yfir hyldjúpa fjalldali
sagði mér skáldið í sama klefa
að Sorgin væri, með alveg áreiðanlegum hætti,
frátekin fyrir okkar líka. (bls 70)
Ástin fer aldrei langt í skáldskap Steinunnar en í þessari nýju bók hefur ástin þroskast. Hún hefur náð nýrri sátt. Ástin er stæða sem er hluti af okkur, rétt eins og dauðinn. Það er fallegt að koma auga á þessa þróun í skáldskap Steinunnar. Ástin er beitan sem sogar okkur inn í ljóðin en það er ekki sama brjálæðið hér og í öðrum ljóðum hennar. Ástin er hluti af lífinu og lífið er hringrás.
Þetta hljómar auðvitað allt afar háfleygt þegar þetta er orðað svona, en eitt af því sem Steinunn gerir svo vel í ljóðum sínum, og hefur alltaf gert, er að gefa orðunum vægi án þess að yfir þeim sé heilagleiki eða tilgerð. Gott dæmi er upphafið á ljóðinu „Sól með sínu lagi“:
Sólin er yfrið skrautlegur skrauthnöttur
og buslukollur.
Uppúr haffletinum stígur hún sína himnesku leið
snögg upp á lagið
hristir sig eins og hver annar hundblautur hundur mundi gera
á jörðinni. (bls 44)
Hið hversdagslega
Í kaflanum „Hvers dags ljóð“ - skipt upp í þrjú orð - má finna ljóð um daglegt líf, og litlu hlutina sem fá okkur fram úr á morgnanna. Þetta eru líka ljóð sem í vissum skilningi henta fyrir hvern dag og minna okkur á augnablikin sem skipta máli. Í ljóðinu „Vertu“ talar ljóðmælandi við manninn sem svo oft má finna í ljóðunum. Við fyrstu sýn er eitthvað barnslega einfalt við ástina sem birtist í ljóðinu, en í samhengi við önnur ljóð bókarinnar komumst við nær Steinunni en áður, inn í hið hversdagslega og fallega:
Vertu hjá mér þegar dagurinn gengur í garð.
Vertu svo vænn að halda í höndina á mér
og þekja vangann með litlu kossunum kæru.
Vertu svo vænn að hvísla því að mér sem er
og því sem alls ekki er.
Förum samstíga fram úr, einn tveir þrír,
og dagurinn verðlaunar okkur, með sól í sígrænu tré, og fleiru. (bls 45)
Dauðinn er oft kómískur hjá Steinunni og ástin alvarleg. Dauðinn er óumflýjanlegur en stundum verður leiðinlegt að bíða eftir honum. Tilfinningar eru persónugerðar og eru iðullega skemmtilegustu aukapersónurnar í bókinni. Í ljóðinu „Hamingjur mínar“ sjáum við hamingjurnar ljóslifandi fyrir okkur:
Hamingjur mínar er ekki háskólagengnar.
Þær eru erfiðiskonur þessar tvíburasystur, eins og á þeim
má sjá.
Fengu ekki að ganga menntaveginn, sama hvað þær voru
námfúsar.
Þær höfðu vit á því að gifta sig ekki. Kunna vel að verjast
vonbiðlum, stóðu saman í því, og voru svo heppnar eða
forsjálar að eignast ekki börn.
Kannski voru þær við karlmann kenndar, en sögurnar
um það er vissara að hafa ekki eftir. (bls 24)
Ljóðabókin Að ljóði muntu verða er falleg viðbót við ljóðasafn Steinunnar og tónar vel við síðustu bók hennar. Við lesum öll ljóð á ólíkan hátt, á ólíkum tímum dags, í einum rikk eða hægt og rólega, eitt ljóð á dag. Ætli sé ekki kjörið að taka þessa með sér næst til útlanda, hoppa upp í næstu lest og lesa ljóð á hverjum krossgötum, á hverjum landamærum. Við getum líka leyft Steinunni að sjá um ferðalögin og ferðast með henni í huganum á milli staða, árstíða og tilfinninga.