Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, settist aftur á þing í dag eftir launalaust leyfi frá því í desember vegna Klausturmálsins. Hann segist ekki líta á sjálfan sig sem ofbeldismann. Ekki sé hægt að skilgreina menn ofbeldismenn fyrir raus á bar. Rætt var við hann í Kastljósi í kvöld.

Bergþór sagðist í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag hafa leitað til sálfræðings og áfengisráðgjafa. Hann sé miður sín yfir mörgu sem hann sagði þetta kvöld. Hann beri ábyrgð á eigin orðum. Hann sagðist í Kastljósi ekki hafa bragðað áfengi frá kvöldinu á Klaustri. 

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra er ein af þeim sem þingmennirnir höfðu uppi ljót orð um í samtalinu sem tekið var upp á Klaustri og birt var í fjölmiðlum. Hún sagðist í samtali við fréttastofu í dag fyrst hafa áttað sig á því að Bergþór og Gunnar Bragi Sveinsson væru komnir aftur til starfa þegar hún sá þá úr sætinu sínu í þingsal. Hún sagði í Kastljósviðtali skömmu eftir að upptaka af samtalinu var birt að henni hefði brugðið þegar mynd af Bergþóri birtist í streyminu hjá henni á Facebook.  

Bergþór segir að kjósendur flokksins í kjördæmi hans, Norðvesturkjördæmi, styðji hann til áframhaldandi þingsetu. Ef það sé rangt mat hjá honum þá komi það í ljós í næstu kosningum.  Þess má geta að samkvæmt könnun Maskínu vill meirihluti kjósenda Miðflokksins að hann segi af sér þingmennsku. Þá kemur fram í sömu könnun að 90% landsmanna vilja að hann segi af sér. 

Bergþór segir það skyldu þingmanna að vinna að þeim málefnum sem fyrir liggja og sagðist ekki vera búinn að taka ákvörðun um það hvort hann sitji áfram sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Hann segir margt athugavert við meðferð málsins af hálfu þingsins. 

„Það verklag sem viðhaft var í málinu öllu, eftir að forsætisnefnd segir af sér í heild sinni vegna vanhæfis í málinu. Það hefur svona vakið menn til umhugsunar, þarna var um tíma talað eins og það væri ekkert sjálfsagðara en að breyta lögum afturvirkt þannig það næði yfir þetta og fleira slíkt.“

Þarna eruð þið að gagnrýna málsmeðferðina en í grunninn, viljiði ekki að málið fari fyrir siðanefnd? „Það er í raun það ferli sem er farið af stað núna og ef það fer til siðanefndar þá fer það til siðanefndar og maður tekur þeirri niðurstöðu sem þaðan kemur,“ segir Bergþór. 

Hér er hægt að horfa á allt viðtalið.