Á undanförnum dögum hafa fjölmargar lista- og menningarstofnanir afþakkað styrki og slitið tengsl sín við góðgerðasjóð Sackler-fjölskyldunnar, eins helsta einstaka styrktaraðila mennta- og menningarstofna beggja vegna Atlantshafsins síðastliðinn áratug.
Þrýstingur á stofnanirnar hefur aukist jafnt og þétt undanfarið eitt og hálft ár eftir að athygli var vakin á því að helsta gullegg hinnar gjafmildu fjölskyldu er lyfjafyrirtækið Purdue Pharma sem framleiðir verkjalyfið Oxycontin. Fyrirtækið er af mörgum álitið bera hvað mesta ábyrgð á ópíóíðafaraldrinum sem hefur geisað undanfarin ár í Bandaríkjunum og víðar og hefur árlega orðið tugum þúsundum að bana.
Ákvörðun stofnananna vekur upp spurningar um tengsl auðfólks og menningarstofnana. Slíkar stofnanir hafa í auknum mæli sótt fjármagn til einkaaðila þegar kostnaður hefur aukist og styrkir frá hinu opinbera hafa minnkað.
Upp á síðkastið hafa mótmælendur fært sig upp á skaftið í gagnrýni á það hvernig stórfyrirtæki, sem hafa sýnt af sér vítavert samfélagslegt ábyrgðarleysi, hvítþvo sig með styrkjum til menningarstofnana – stunda það sem stundum hefur verið kallað „listþvottur“.
Sigurjón B. Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands, segir að fólk hafi einnig áhyggjur af mögulegri ritskoðun eða sjálfsritskoðun sem geti átt sér stað í menningarstofnunum sem hljóta slíka styrki frá umdeildum fyrirtækjum. „En þessar stofnanir eru ekki í öfundsverðri stöðu. Kannski má að einhverju leyti segja að þeim sé stillt upp við vegg. Ef þau eiga að standa sig í stykkinu faglega hafa þau frekar takmarkað val um það að taka ekki við peningum, jafnvel frá fyrirtækjum sem sæta harðri gagnrýni,“ segir hann.
Fyrir utan áberandi mótmæli og aðgerðir ljósmyndarans Nan Goldin sem hafa beinst að Sackler-fjölskyldunni hafa nokkur mótmæli verið við British Museum í London þar sem náttúrverndarsinnar hafa mótmælt stuðningi olíurisans BP við safnið. Í Frakklandi hefur stuðningi franska olíufyrirtækisins Total við Louvre-safnið verið mótmælt. Listamenn tóku verk sín af sýningu hönnunarsafnsins í London eftir að í ljós kom að rými safnsins hafði verið notað fyrir viðburð á vegum vopnasölufyrirtækis. Hinum megin við Atlantshafið hefur setu Warrens B. Kanders í stjórn Whitney-safnsins verið mótmælt, en hann er eigandi fyrirtækis sem framleiðir táragas sem hefur verið notað á flóttamenn við suðurlandamæri Bandaríkjanna.
Það virðist vera aukin krafa um hreinleika þeirra peninga sem knýja helstu menningarstofnanir. Spurningin sem æ fleiri spyrja sig um þessar mundir er hvaða peningum menningarstofnanir geti tekið við með góðri samvisku og hversu samfélagslega óábyrgir styrktaraðilarnir þurfa að vera til að stuðningur þeirra sé afþakkaður.