„Annað merki um dirfsku þýðanda að mínum dómi, hann óttast ekki samanburðinn. Annað sem gerir þessa útgáfu sérstaka og skemmtilega eru myndskreytingar Ragnars Kjartanssonar og er óhætt að segja að skírskotun þeirra sé bæði húmorísk og nútímaleg.“ Gauti Kristmannsson, bókmenntarýnir Víðsjár, fjallar um Víti Dantes í þýðingu Einars Thoroddsens.


Gauti Kristmannsson skrifar:

Þau gleðilegu tíðindi bárust nú fyrir skömmu að út væri kominn fyrsti þriðjungur Gleðileiksins guðdómlega eftir höfuðskáld ítalskrar tungu, Dante Alighieri, í íslenskri þýðingu Einars Thoroddsens. Nú hafa þýðingar á hlutum og heild þessa verks birst áður, en þetta er í fyrsta sinn sem við fáum fyrsta hlutann í heild sinni, sem þýðandinn nefnir Víti fyrir Inferno, nánast undir þeim bragarhætti sem frumtextinn var ortur á, tersínunni eða þríhendu eins og hún er kölluð á íslensku. Áður hafði Guðmundur Böðvarsson þýtt nokkrar kviður úr þessum hluta Gleðileiksins undir heitinu Tólf kviður úr Gleðileiknum guðdómlega, og loks gaf Erlingur E. Halldórsson út prósaþýðingu á öllu verkinu fyrir nokkrum árum. Einnig þýddi Málfríður Einarsdóttir töluvert úr verkinu, en þær þýðingar birtust fáar, ef nokkrar, og finnast í handritum hennar í Landsbókasafni. Þýðing Guðmundar var nokkuð gagnrýnd á sínum tíma, en hann þýddi úr dönsku, en ekki síst var hann átalinn fyrir notkun sína á þríhendunni sem talin var hafa bundið hendur hans um of, ekki síst með strangri notkun stuðla og höfuðstafa.

En hvers vegna ættu það að vera einhver sérstök gleðitíðindi að út er komin ný þýðing á frumhættinum ef svo má orða? Það liggur í tvennu að mínu mati: stöðu Dantes sem eins af höfuðskáldum vestrænnar menningar og einmitt í bragarhættinum, þríhendunni. Dante Alighieri var nefnilega ekki aðeins skáld, heldur má segja að hann hafi staðið fyrir þeim straumhvörfum í evrópskri menningu að menn tóku að yrkja stórvirki hámenningar með vísan til fornaldar á móðurmálinu. Vissulega var margt og mikið ort á móðurmálum fyrir þann tíma, en sá kveðskapur hafði ekki sömu stöðu í menningunni og það sem Dante taldi rétt að yrkja. Dante áorkaði þessu með tveimur verkum, nokkurs konar yfirlýsingu um að unnt væri að yrkja á þjóðtungunni, De vulgari eloquentia eða Um kveðskap á þjóðtungu og síðan vitaskuld Gleðileiknum guðdómlega þar sem hann sýndi í verki hvað hann vildi gera. Síðar tóku margir upp merki hans, beint eða óbeint og má segja að þá sögu megi rekja frá Ítalíu til Frakklands, Bretlands, Þýskalands og á endanum getum við fundið hans fyrsta fulltrúa hér á landi í Jónasi Hallgrímssyni, þótt forsendur hans hafi verið aðrar. En Jónas orti fyrstur manna, svo eftir væri tekið, undir þríhenduhætti og það ekkert minna ljóð en „Gunnarshólma“.

Ákvörðun Einars að þýða kvæðið undir þessum hætti verður því að teljast nokkuð djörf, en hann er vitaskuld þýðandi sem sýnt hefur allnokkra hæfileika á þessu sviði áður, svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Í eftirmála sínum lýsir Einar því að hann haldi í notkun íslenskra ljóðstafa „með stuðlum í fyrstu hendingu hverrar vísu og stundum höfuðstöfum í annarri eða þriðju ljóðlínu, en þar eð línurnar hafa fimm „kveður“ (áherzluatkvæði) nota ég mjög oft eingöngu stuðla. Jónas krefst ekki höfuðstafa í Gunnarshólma og ég ekki heldur.“ Nú er ég ekki alveg sammála því að hann „haldi“ beinlínis í íslenska ljóðstafi, heldur eru þeir hrein viðbót við frumtextann, en hann gerir það með þeirri aðferð sem Jónas notaði, þ.e. einhverju sem kalla mætti „frjálsa ljóðstöfun“, ekki ólíkt því sem þýska skáldið Friedrich Klopstock gerði þegar hann orti undir sexliðahætti á þýsku og notaði það sem hann kallaði „frjálsa hrynjandi“. Síðari tíma þýðendur og skáld líkt og Johann Heinrich Voss og Hölderlin gengu svo lengra í að beygja þýska tungu undir hina framandi grísku hrynjandi.

Ég dvel við þessi bragfræðilegu efni vegna þess að þau skipta meira máli en í fyrstu mætti ætla. Það sem Jónasi tókst að gera með „Gunnarshólma“ á sínum tíma var einmitt að þýða þennan ítalska brag inn í íslenskt ljóðmál og þar með breytti hann tjáningarmöguleikum íslenskunnar. Þessi aðferð, ef svo mætti kalla, var stunduð um alla Evrópu á meðan verið var að styrkja þjóðtungurnar í sessi sem hámenningarmál og raunar má færa sterk rök fyrir því að fyrirmynd Dantes á þessu sviði, rómverska skáldið Hóras, hafi gert hið sama þegar hann flutti grískan brag inn í latneska tungu. Málið er að tungumál sem hefur náð valdi á tækjum fyrirmynda fornaldar hefur allt annan sess og leikur þannig stórt hlutverk í þjóðmenningu þeirri sem þróaðist á nýöld í Evrópu og þannig urðu móðurmálin einn af hornsteinum þjóðríkjanna sem urðu til á nítjándu og tuttugustu öld.

Það er kannski ekki þörf á því núna, á 100 ára fullveldisafmæli Íslands, að ítreka tjáningarmöguleika íslensku undir klassískum hætti, og þó, hugsanlega stöndum við einmitt á öðrum tímamótum þar sem móðurmálshreyfing undanfarinna alda lætur undan og við fáum ensku sem hið nýja lingua franca, líkt og latína var á miðöldum. En kviðdómurinn er ekki kominn inn í þeim efnum eins og menn segja á ensku. Og á meðan svo er má það heita sjálfsagt og afar gott að haldið er í tjáningarmöguleika íslenskunnar á öllum sviðum.

Einar sagði, muni ég rétt, í útgáfuhófinu að markmiðið væri færa okkur Dante á nútímaíslensku og reyna að bjarga brageyra Íslendinga. Ég tek það fram að ég hef þetta eftir minni úr ræðum þýðandans og ritstjórans, Jóns Thoroddsens. Það er einmitt mjög mikilvægt að fá þetta verk þannig að við getum lesið það án mikilla uppflettinga og auðvitað væri flott ef einhver rapparinn semdi við það tónlist og við fengjum einhver sviðsverk með henni, möguleikarnir eru óendanlegir. Þýðandinn setur einmitt stuttar skýringar neðanmáls og eru þær settar fram með línutilvísun á mjög smekklegan hátt og verður að segja að allur frágangur á bókinni er til fyrirmyndar þótt ef til vill sé dálítið erfitt að fletta henni þar hún er svo þykk, en það stafar af því að frumtextinn er hafður með síðu við síðu. Annað merki um dirfsku þýðanda að mínum dómi, hann óttast ekki samanburðinn. Annað sem gerir þessa útgáfu sérstaka og skemmtilega eru myndskreytingar Ragnars Kjartanssonar og er óhætt að segja að skírskotun þeirra sé bæði húmorísk og nútímaleg.

Nú hefur mér ekki veist ráðrúm til að lesa stórvirkið í gegn, en ég hef lesið texta Dantes í öðrum þýðingum og gat því skoðað nokkra kafla, og það verður að segja að oftast rennur þetta vel, það er þó kannski ofsagt að allt sé á nútímamáli og töluvert er um inversjónir og önnur brögð skálda og þýðenda á bundnu máli; stuðlarnir og rímið geta verið býsna þvingandi, en það er oft aðdáunarvert hvernig Einar glímir við þetta, „dansandi í keðjum“ eins og heimspekingurinn Friedrich Nietzsche komst að orði í svipuðu samhengi. Vafalaust má fara í baunatalningu á merkingarsviði þess vegna, hvort sem elst er við orðabókarmerkingu eða spurningar um nýtt mál og fornt, en lykilatriðið er að hér er ný þýðing á einu mikilvægasta verki heimsbókmenntanna sem hefur alla burði til að standa sem sjálfstætt listaverk á íslensku máli og eykur þannig burðarþol tungunnar svo um munar. Við þurfum á því að halda nú um stundir og hver annar en Dante í íslenskum búningi getur veitt okkur þann styrk?