Á dögunum kom út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags bókin Einar Jónsson myndhöggvari – verk, táknheimur og menningarsögulegt samhengi. Þar grefst listfræðingurinn Ólafur Kvaran fyrir um áhrif þýsks symbólisma, guðspekinnar og fleiri hugmyndastrauma á Einar og rekur menningarsögulegt mikilvægi verka hans.

Ólafur segir safn Einars Jónssonar, sem hann veitti forstöðu á árum áður, vera einstakt í safnaflóru Íslendinga. Safnið er elsta listasafn landsins og þar fann listamaðurinn sjálfur verkum sínum stað. Ólafur segir að safnið hafi fyrst verið opnað í hinum blámálaða móttökusal safnsins. „Verkin sem hér eru lögðu í raun grunninn að frægð hans sem listamanns,“ segir Ólafur í salnum og nefnir sérstaklega Öldu aldanna, Útlagann og frummyndina af Ingólfi Arnarsyni.  Víðsjá heimsótti Ólaf í safni Einars Jónssonar til að ræða listamanninn og bókina.

Gestur í safninu, sem kemur þangað eftir nokkra fjarveru, er alltaf dálítið hissa þegar gengið er inn í salinn. „Já, það sem margir tala um er stærðin,“ segir Ólafur. „Bæði stærðin á sölunum og ekki síður stærð verkanna sem standa hátt á sínum stöplum eins og hefðin boðaði á þessum tíma og gesturinn horfir upp og finnur fyrir smæð sinni.“

Tengingar liggja víða

„Þegar maður fer að kanna táknheim verkanna þá koma fljótlega upp spurningar um listsöuglegt samhengi verka Einars,“ segir Ólafur en þessu samhengi miðlar hann vel og ítarlega í nýju bókinni, sem er öll hin glæsilegasta.

„Einar tilheyrir hinum þýska armi symbólismans um aldamótin 1900. Það er alveg ljóst að Einar hafði mjög náin tengsl bæði við Berlín og Vín þangað sem hann fór iðulega í heimsóknir og þar þekkti hann vel til. Það hefur oft verið sagt að Einar hafi verið dálítið sér á báti í list sinni en ég er á því að hann megi tengja ákveðnum hópi listamanna bæði í hinum þýskumælandi heimi og í Danmörku. Þetta á líka við um hina heimspekilegu vídd í verkum Einars þar sem áhrif frá Nietzsche og hugmyndum hans um ofurmanninn eru greinileg, til dæmis í þemanu um brautryðjandann.“

Frelsi undan hefðinni

Ólafur segir Einar hafa vilja brjótast undan oki listasögunnar og hefðarinnar eins og hún birtist í rómverskum og grískum höggmyndaarfi. „Í huga Einars var það skylda listamannsins að fara sína eigin leið. Árið 1905 sýndi hann í Kaupmannahöfn verkið Fornlistina sem var eins konar stríðsyfirlýsing hans gagnvart klassískri höggmyndahefð. Hann sá hefðina sem tákn um fjötra sem listamaðurinn þurfti að brjótast úr. Í staðinn átti listamaðurinn að leggja áherslu á ímyndunaraflið, fantasíuna og vinna sín verk á eigin forsendum.“

Í viðtalinu hér fyrir ofan má heyra Ólaf Kvaran ræða ítarlega um verk Einars, táknheim þeirra og pólitískt samhengi, ekki síst þegar kom að því að flytja þau heim til Íslands á sínum tíma og byggja safn yfir þau á Skólavörðuholti. Þá var byggt undir hugmyndalegan grunn verkanna með tengingum við íslenskar miðaldabókmenntir og náttúru.