Nú stendur yfir í MoMA, nútímalistasafninu í New York, einkasýning bandarísku listakonunnar og heimspekingsins Adrian Piper. Sýningin er sú stærsta sem haldin hefur verið í safninu til heiðurs listamanni sem er á lífi og tekur sýningin alla sjöttu hæðina i safninu, gríðarstóran geim sem notaður er undir sérsýningar.

„Þetta er mikill heiður en hún er búsett í Berlín, fer ekki lengur til Bandaríkjanna, þannig að hún hefur ekki séð sýninguna sjálf, bara lítið módel af sýningunni,“ segir Sverrir Norland, rithöfundur, sem er búsettur í borginni og heimsótti sýningu Pipers nú á dögunum. „Þessi sýning spannar rosalega vítt róf af ólíkum listaverkum og tilfinningum, hún er bæði mjög pólitísk og mjög innleitin og heimspekileg.“

Á mörkum svarts og hvíts

Adrian Piper er fædd í New York árið 1948. Fjölskylda hennar tilheyrði efri-millistétt og hún fór í einkaskóla þar sem flestir nemendur voru hvítir. Líkt og foreldra hannar, sem voru blandaðir, er hún mjög ljós á hörund miðað við marga Bandaríkjamenn af afrískum uppruna, en dekkri en þeir hvítu. Þessi staða hennar á mörkunum, mótaði líf hennar og list, hún var alltaf á jaðrinum, á landamærum samfélags hvítra og svartra, tilheyrði alltaf báðum í senn og hvorugum hópnum.

Piper hefur þannig sagt frá því í viðtölum og ritgerðum að þegar hún hélt til í hverfum á borð við Harlem, þar sem svartir eru í meirihluta, hafi hún stöðugt verið talin hvít, stöðugt þurft að sanna að hún væri svört og hefði upplifað rasisma á eigin skinni. Hún hefur talað um hvernig hún fann til sektarkenndar vegna þess að hún var ljós, en á sama tíma hafi henni sárnað illilega og fundist þarna vera brotið á rétti hennar og réttlætiskennd hennar særð. 

Í upphafi myndlistarferilsins var þetta þó ekki umfjöllunarefni hennar. Hún vann teikningar sem gáfu ekkert sérstaklega til kynna að hún væri svört kona. Nafnið gaf heldur ekkert upp um þessa flokkun. Adrian Piper hefði alveg eins getað verið hvítur karlmaður. Lengi framan af, þegar hún var enn nokkuð óþekkt, fékk hún líka að sýna á ýmis konar hópsýningum og birta skrif sín í tímaritum. Piper hefur svo talað um hvernig hún fann fyrir vonbrigðum fólks og væga áfalli þegar það hitti hana - hún var þá bara svört kona. 

Svarti maðurinn sem goðsagnavera

Sýningin í MoMA er skipulögð í línulegri tímaröð, elstu verkin fyrst og svo koll af kolli til dagsins í dag. „Hún gekk í gegnum nokkur skeið sem listamaður. Fyrst eru málverk og teikningar, bara dálítið dæmigert - svona byrjum við. En þarna eru til dæmis flottar myndir þar sem hún hefur splæst dúkkum við málverk, það eru litlar stelpur sem halda á dúkkum sem koma út úr málverkinu,“ segir Sverrir. 

Í byrjun áttunda áratugarins fór hún í auknum mæli að fjalla um kynþáttamál, sjálfsmynd og það hvernig heftandi merkimiðar eru stöðugt hengdir á fólk. Hún hugsaði ekki um sig sjálfa sem svartan kvenlistamann heldur einingus listamann, en samfélagið þröngvaði þessum skilgreiningum upp á hana, og hún fann sig knúna, tilneydda, til að takast á við þessar skilgreiningar, bæði í heimspeki og listinni.

Piper leikur sér á mörkunum, ögrar flokkunum sem gefa sig út fyrir að vera náttúrulegar og óumdeilanlegur en eru að hennar mati, samfélagslegar. Öll erum við af blönduðum uppruna, það er ekkert sem heitir að vera alveg hvítur eða alveg svartur. Fræðimenn hafa talað um að hún skapi þannig oft meðvitað óþægindi hjá áhorfendum, á sama hátt og transfólk hefur ruglað fólk í ríminu, og þannig skapað óhug og ótta. Og eins og transmanneskja hefur hún tekið ákvörðun um hvernig hún vill vera. Snemma á 21. öldinni hætti hún að taka þátt í samsýningum sem voru einingis með svörtum listamönnum og árið 2012 sagði hún endanlega skilið við kynþáttaskilgreininguna sem samfélagið tróð upp á hana - gaf út yfirlýsingu um að hún væri ekki lengur svört: „Héðan í frá verður kynþáttargreining mín hvorki svört né hvít, heldur 6,25 prósent grá, og þannig heiðra ég þann 1/16 hluta af mér sem kemur frá Afríku.“