Hringur, ferhyrningur og lína nefnist fyrsta yfirlitssýningin á verkum Eyborgar Guðmundsdóttur listmálara, sem stendur nú yfir á Kjarvalsstöðum. Fram að þessu hefur Eyborg verið hálfgerð huldukona í íslenskri myndlistarsögu.

Hún hóf nám tiltölulega seint á ævinni, féll frá langt fyrir aldur fram en kom miklu í verk á snörpum ferli. Saga Eyborgar var sérstæð. Hún fæddist árið 1924, missti móður sína barnung og ólst upp hjá ömmu sinni og afa í Ingólfsfirði á ströndum og hlaut menntun sína í farskóla nokkrar vikur á ári. 16 ára veiktist hún af berklum en útskrifaðist af Vífilsstöðum fjórum árum síðar og komst í framhaldinu í kynni við helstu listamenn þjóðarinnar í Reykjavík.

„Hún flyst að Vesturgötu 53 til móðurbróður síns sem var fósturbróðir Valtýs Péturssonar, “ segir Heba Helgadóttir, sem er sýningarstjóri ásamt Ingibjörgu Sigurjónsdóttur. „Það var mikið um listafólk í þessu húsi, hún umgekkst mikið af listafólki og fór á margar sýningar.“

Eyborg fann sína hillu í strangflatarlistinni, eða geómetríu. Hún lagði stund á myndlist í frístundum meðfram vinnu og naut liðsinnis ýmissa listamanna, þar á meðal Dieter Roth, áður en hún hélt til Parísar í nám 35 ára gömul. Hún skráði sig í skóla en hætti fljótlega og einbeitti sér að sjálfstæðu námi undir leiðsögn manna á borð við George Folmer og Victor Vasarely. 

„Ég myndi segja að þessir menn hafi haft mjög sterk áhrif á list hennar og eftir þetta fylgdi hún evrópskum listheimi. Þegar hún kemur heim 1965 er þessi list - opplistin og strangflatarlistin - ekki lengur uppi á borði hér lengur. Hún sló því ekki í gegn sem tíðarandamanneskja hér heima en þeir sem voru vel inn í listheiminum skildu hvert hún var að fara.“

Eyborg var afkastamikil eftir að hún sneri heim úr námi en féll frá aðeins 52 ára árið 1977. Eftir það fennti yfir hana í listasögunni. „Ég vissi sáralítið um Eyborgu áður en ég fór að vinna þessa sýningu,“ segir Ingibjörg. „Maður þekkir verk sem er í glugganum á Mokka, það þekkja það flestir jafnvel án þess að vita að þeir þekki verk eftr Eyborgu því það er búið að vera þarna frá því að hún sýndi þar 1966. Síðan hefur maður séð verk og verk á samsýningum í gegnum tíðina. Maður hafði heyrt um þessa hálfgerðu huldukonu en ég vissi í rauninni sáralítið um hana áður en ég fór að grúska fyrir þessa sýningu.“

Sýningin stendur yfir til 28. apríl en laugardaginn 23. mars verður haldið á Kjarvalsstöðum í tengslum við sýninguna málþing um stöðu kvenna í íslenskri listasögu og vinnuumhverfi kvenna í myndlist.