Andrúmsloftið í Alþingishúsinu hefur verið sérstakt það sem af er degi. Í morgun tilkynntu þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason að þeir tækju sæti á þingi að nýju og hafa þeir tekið þátt í þingstörfum í dag. Þeir voru meðal annars viðstaddir óundirbúnar fyrirspurnir.

Það vakti athygli viðstaddra í þingsal þegar Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra stóð tvisvar upp úr sæti sínu, með tæplega tveggja mínútna millibili,  og hvíslaði að Gunnari Braga. Skömmu seinna yfirgaf Lilja þingsalinn.

Bergþór og Gunnar Bragi viku báðir sæti á Alþingi eftir að Stundin og DV birtu upptökur þar sem þeir sátu að bjórsumbli og ræddu á ósæmilegan hátt um fjölda fólks, meðal annars Lilju. Lilja vakti síðar athygli fyrir viðtal í Kastljósi þar sem hún sagðist hafa upplifað ummælin á Klaustri sem ofbeldi.

Fréttastofa birtir viðtal við Lilju Alfreðsdóttur síðar í dag. 

Fréttinni hefur verið breytt.