Grunur er um myglu í fjórum skólum í Reykjavík. Sviðstjóri skóla- og frístundasviðs segist skilja óánægju foreldra og starfsfólks með stöðuna, sem skýrist af viðhaldsleysi. Gera á heildarúttekt á skólabyggingum í sumar.
Staðfesting á myglu hefur fengist í tveimur skólum og vísbendingar eru um myglu í tveimur til viðbótar. „Það eru byrjaðar framkvæmdir í Breiðholtsskóla, þar sem er verið að hreinsa leka og stöðva myglu. Svo er í athugun í Ártúnsskóla, það er á tveim, þrem stöðum þar sem starfsmenn hafa fundið fyrir einkennum og verið að fara í könnun á því og svo þurfum við að skoða aðeins í Seljaskóla. Þetta er það sem ég veit af,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Í Breiðholtsskóla er búið að loka álmunni sem þarf að gera við. Búist er við niðurstöðum úr sýnum úr Ártúnsskóla eftir helgi. Vitað er um raka í Seljaskóla sem á eftir að kanna nánar. Ásamt Fossvogsskóla sem hefur verið til umræðu undanfarið. „Bæði foreldrar og starfsfólk er auðvitað óánægt með stöðuna og vel skiljanlega,“ segir Helgi.
Helgi segir jafnframt að það sé fyrst og fremst starfsfólk í þessum skólum sem finni fyrir einkennum. Niðurskurður eftir hrun skýri stöðuna. „Það vantaði fjármagn til að fara í nauðsynlegt viðhald. Það var sparað, það var verið að halda úti starfi með börnunum, ekki skera niður starfsmannahaldið, þetta var fyrstu árin eftir hrun en núna er komið mun meira fjármagn til að fara í viðhald þannig eins og ég segi við komumst þangað,“ segir Helgi jafnframt.
Þarf ekki að fara í heildarúttekt á öllum skólunum? „Jú, það er einmitt það sem umhverfis- og skipulagssvið ætlar að gera í sumar, fara ofan í alla hugsanlega leka og skoða þau mál almennilega. Þannig að áætlun liggi fyrir ef það á eftir að gera eitthvað til viðbótar en enn og aftur, sú skoðun á bara eftir að leiða það í ljós,“ segir Helgi.