Jón Daði Böðvarsson, framherji íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var skapstór leikmaður á sínum yngri árum, og bannaði móður sinni lengi vel að mæta á völlinn. Leikmenn íslenska liðsins eru settir undir smásjána á Sportrásinni á Rás 2 öll mánudagskvöld fram að lokakeppni EM í Frakklandi.

Jón Daði hóf ferilinn sjö ára gamall á Selfossi þar sem Halldór Björnsson þjálfaði hann fram eftir aldri.

Drengurinn var skapstór: „Svo settumst við saman upp í brekku, við vorum búnir að koma okkur upp rútínu, þegar hann var alveg að missa sig þá settumst við saman upp í brekku og ræddum málin. Svo var það orðið svoleiðis að hann settist bara sjálfur upp í brekku, sat þar smástund og kom svo niður þegar hann var klár,“ sagði Halldór þjálfari Jóns Daða.

Ingibjörg Erna Sveinsdóttir, móðir Jóns, er stolt af syni sínum. „Hann bað mig vinsamlegast að vera ekkert á vellinum því ég gargaði svo hátt að honum fannst ég vera honum til skammar, það var ekki fyrr en hann varð eldri að ég mátti mæta á völlinn,“ sagði Ingibjörg um ungan Jón Daða Böðvarsson.

Kristján Guðmundsson leggur jafnframt sitt mat á leikmanninn eins og aðra í nærmynd Sportrásarinnar.