Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður Skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir að verslun og verslunarhættir séu að breytast. Tóm verslunarrými séu í miðborginni, Kringlunni og víðar. Hún segir að fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði verði lækkuð í skrefum úr 1,65% af fasteignamati í 1,6% fram til ársins 2022.
Spegillinn lagði leið sína í bæinn í vikunni til að skoða auð verslunarrými á mótum Skólavörðustígs, Bankastrætis og Laugavegar. Þar voru allt að tólf rými auð á tiltölulega litlu svæði. Verslunareigendur hafa bent á að hærra fasteignamat hafi leitt til hærri fasteignagjalda sem hafi svo orðið til þess að leiga á þessum rýmum hafi hækkað mikið. Þjóðskrá tók upp nýja aðferð við að reikna út fasteignamat árið 2014.
Sigurborg segir að álagningin sem komi frá sveitarfélaginu sé 1,65 prósent og hún sé ávallt sú sama. „En verðmæti fasteignarinnar hins vegar hækkar mjög mikið og það er ákveðin reikniregla sem er notuð þar og hún er svolítið sérstök að því leytinu til að það er verið að styðjast við verðmæti fasteignarinnar út frá sölu.“
Fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði er 1,65% af fasteignamati. Fasteignamatið hækkaði um 17,2 prósent á höfuðborgarsvæðinu í fyrra.
Verðmæti á atvinnuhúsnæði hefur tvöfaldast
„En það sem er að gerast er að fasteignaskattarnir hækka vegna þess að verðmæti fasteignarinnar hækkar og við höfum séð það síðustu sex ár að þá hefur verðmæti atvinnuhúsnæðis allt að tvöfaldast og þá hækka skattarnir með en álagningin er hins vegar sú sama. En það er rétt að hafa í huga að meirihlutinn hérna í borgarstjórn hefur sammælst um að lækka þessar álögur í skrefum og niður í 1,6%.“
Félag atvinnurekenda hefur stefnt Þjóðskrá og Reykjavíkurborg vegna útreiknings fasteignamats og álagningar fasteignagjalda. Verslunarrýmið sem um er rætt er í Kringlunni. Fasteignagjöld eignarinnar hækkuðu um 98% á árunum 2014 til 2017. Málið var dómtekið í lok mars og má búast við niðurstöðum á næstu vikum.
Félag atvinnurekenda hefur einnig sent fjármálaráðherra bréf og hvatt hann til að taka upp viðræður við sveitarfélögin um hvernig koma megi útreikningi og álagningu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði í lögmætt og gegnsætt horf, eins og það er orðað á vef félagsins.
Bent er á að vegna hækkana á fasteignamati og þar með fasteignagjöldum neyðast leigusalar iðulega til að hækka leigu. Hækkun á leigutekjum leiðir svo til hækkunar á fasteignamati, sem aftur leiðir til hækkunar á fasteignagjöldum, sem leiðir til hækkunar á leigu og þannig halda víxlhækkanir fasteignamats og leigu áfram.
Lækka fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði í borginni
Sigurborg segir að hún viti ekki til þess að verið sé að endurskoða þessa reiknireglu. „Þetta er reikniregla sem er að einhverju leiti ógagnsæ. Ég get tekið undir það. Þetta hefur síðan aftur áhrif á leiguverðið sem hefur síðan áhrif á fasteignaverðið þannig að þetta er kannski ekki góð þróun.“
Hvað ætlið þið stjórnmálamenn að gera sérstaklega í þessu með Laugaveginn?
„Sko það sem snýr að Reykjavíkurborg er álagningarhlutfallið og það stendur til að lækka það. Varðandi þessa reiknireglu er það í höndum Þjóðskrár og stjórnvalda þannig að það er í rauninni ekki í okkar höndum.“
Hvenær verður þessi lækkun fasteignagjalda sem þú nefndir? „Það stendur til að lækka fasteignagjöldin úr 1,65 niður í 1,63 núna 2021 og svo niður í 1,60 2022“
Mikil hreyfing í miðborginni
Sigurborg á von á því að fljótlega fari að fyllast í tóm rými í borginni. „Já ég hef ekki miklar áhyggjur af því og það sem er að gerast í borginni núna að það er mikil hreyfing á hlutunum. Það eru verslanir að hreyfast á milli svæða eftir því hver markhópurinn er en líka bara eftir leiguverði og hvernig markaðurinn sveiflast og það er mjög áhugavert að sjá hvað Hafnartorg hefur að segja inn í þetta, bæði þá inn í leiguverðið en líka framboðið. Við erum að fá stærri verslunarkeðjur niður á Hafnartorg en minni aðila sem hafa ekki tök á að leigja svona stór rými, þeir koma hér upp á Laugaveginn.“
Laugavegurinn er ekki verslunarmiðstöð
Sigurborg segir að miðborg Reykjavíkur sé borg í blóma. Í fyrrasumar hafi 22 þúsund manns gengið um Laugaveginn á hverjum degi. Huga verði að fjölbreytileikanum og hvernig verslun sé að þróast.
„Laugavegurinn er ekki verslunarmiðstöð. Hann er áfangastaður og þess vegna erum við að setja fjárfestingu í að endurhanna Laugaveginn sem göngugötu og viðamiklar fjárfestingar sem hafa farið í aðrar götur hérna í kring.“
Sem einmitt eru kannski núna í samkeppni við þetta dýra húsnæði hér við Laugaveg, verðið þið ekki að mæta því einhvern veginn til þess að Laugavegurinn deyi ekki hér á einu mesta gróskuskeiðinu sem verið hefur?
„Ég hef ekki áhyggjur af því að Laugavegurinn sé að deyja eða verslun við Laugaveg sé að fara að deyja en að sjálfsögðu verðum við einmitt að huga að þessum þáttum. Ég er hjartanlega sammála því og það er einmitt það sem mikið af okkar vinnu fer í.“
Sigrún segir að Laugavegurinn sé ekki einsdæmi. „Það eru tóm rými líka í Kringlunni. Það eru tóm rými líka annars staðar og í rauninni, eins og sést t.d. um gjörvöll Bandaríkin, þá er svona verslunarhúsnæði, svona „big boxes“, í þúsundavís sem hefur lokað þannig að verslun og verslunarhættir eru að breytast. Við erum að fjárfesta meira í upplifun við erum að fjárfesta meira í lífsgæðum og það er það sem miðborgin býður upp á.“