Vísindunum og möguleikunum til að hafa áhrif með erfðatækni fleygir fram en menn verða að velta fyrir sér afleiðingum og stíga varlega til jarðar - má segja að sé inntakið í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna þar sem velt er upp áskorunum og umhverfisógnum framtíðar. Þar á meðal eru möguleg áhrif nýrrar líftækni.
Dreifing erfðabreyttra mýflugna í baráttu gegn malaríu í Afríku gæti haft ófyrirséðar afleiðingar - er meðal þess sem rætt er um í skýrslunni þar sem líka er horft til jákvæðra áhrifa af nýjungum í erfðatækni. Með henni verði mögulega hægt að útrýma sjúkdómum, endurlífga horfnar tegundir og búa til ýmislegt sem maðurinn reiðir sig á á hagkvæmari hátt og án þess að ganga á náttúruauðlindir með sama hætti og nú er. En um leið kallar þróunin á eftirlit og lagasetningu á alþjóðavettvangi að mati Sameinuðu þjóðana.
Erfðabreyttar lífverur gætu til dæmis hjálpað til í baráttu við sjúkdóma sem verða hundruðum þúsunda manna að aldurtila ár hvert. Hartnær hálf milljón manna dó úr malaríu sem berst með moskítóflugum árið 2016. Í nokkrum löndum Afríku þar á meðal Burkína Fasó er verið að undirbúa að sleppa þúsundum moskítóflugna sem bera með sér gen sem veldur ófrjósemi og myndi eyða stofninum. Í dag er líka mögulegt að erfðabreyta e.coli-gerlum svo þeir framleiði lífdísel eða bólusetningarefni gegn klamydíu svo nokkuð sé nefnt, slíkt er mögulegt í dag. Það er einnig horft til þess að með bakteríum geti verið mögulegt að framleiða ýmis efni sem nú eru helst búin til úr olíu eða öðrum uppsprettum sem ekki endurnýjast og með erfðabreyttu geri er hægt að búa til leður sem svipar í flestu til húða af dýrum.
Miklu nákvæmari og hraðari aðferðir
Fyrir nokkrum árum kom fram ný erðfatækni sem köllluð hefur verið CRISPR, með henni er hægt að breyta erfðaefni með miklu meiri nákvæmni og miklu hraðar en áður. Með henni hefur verið vonast til að hægt sé að útrýma arfengum sjúkdómum, auka vöxt húsdýra og gera þau ónæm fyrir vissum sjúkdómum og auka uppskeru svo hægt sé að fæða fleiri.
Klippa gen í bílskúrnum
Erfðatæknin hefur ekki bara vakið athygli stórra háskóla og stórfyrirtækja eins og lyfjarisanna. Venjulegir borgarar hafa látið til sín taka og á síðustu árum hefur farið af stað bylgja þar sem menn dunda sér sjálfir við tilraunir með genaferjur. Án þess að búa yfir mikilli þekkingu á lífvísindum koma menn saman, taka skyndikúrsa í líftækni og gera svo raunverulegar tilraunir nánast í bílskúrnum. Leiðbeiningar er víða að finna á netinu og búnaður sem kostar frá 150 dollurum upp í um 1.600 eða frá tæpum 20 þúsund krónum upp í tvö hundruð þúsund hafa orðið til þess að áhugamönnum í þessari grein hefur fjölgað mjög, segir í skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Tilraunastofur sé að finna í flestum stærri borgum heimsins og hátt á annað hundrað samtaka líftækniáhugamanna í heiminum. Það geti reynst yfirvöldum erfitt að hafa eftirlit og stjórn með þessu framtaki, eftir því sem tækni á borð við CRISPR breiðist út. Þá séu vaxandi áhyggjur af því að með líftækni geti hryðjuverkamenn eyðilagt uppskeru eða umturnað meinlausum örverum í vopn.
Ógnvekjandi möguleikar í hernaði
Erfðabreyttar lífverur geta líka ógnað fjölbreytileika náttúrunnar og rutt fleirum úr vegi en ráð var fyrir gert. Þegar hafa risið hreyfingar sem vilja banna allar rannsóknir sem snúast um genaferjur og genadrif. Ýmsir velta því fyrir sér að möguleikar á beitingu þeirra í hernaði og af hryðjuverkamönnum séu ógnvekjandi og ekki bara órar þeirra sem búa til hasarmyndir. Með því að sleppa viljandi lífverum sem hefur verið breytt til að hafa áhrif á náttúru- og dýralíf telja sumir að sé gengið langt út yfir þau mörk sem beri að virða til að verja náttúruna. Öðrum finnst að mönnum beri siðferðileg skylda til neyta þess sem mögulegt er til að lina þjáningar fólks eða reisa við vistkerfi og tegundir í hættu. Líftæknin vekur líka eins og fram kemur í umfjöllun Sameinuðu þjóðanna spurningar um eignar- og höfundarrétt á erfðabreyttum lífverum og genamengi þeirra, hvernig eigi að verja þá sem standa höllum fæti og tryggja það að þeir sem verða fyrir áhrifum eigi sér rödd. Það sé því lífsnauðsynlegt að samhliða þróun í tækni fari fram samtal sem tryggi að framfarir í vísindum gagnist öllum á jörðinni sem við deilum.