Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, hafa birt ítarlega umfjöllun um gölluð lækningatæki sem grædd eru í fólk um allan heim. Íslensk heilbrigðisyfirvöld ætla að skoða málið ítarlega á næstu dögum. Greinarnar eru unnar í samstarfi við hátt í 60 fjölmiðla í 36 löndum og afhjúpar yfirvöld fyrir að bregðast skyldum sínum við eftirlit sjúklinga og lækningatækja.
Umfjöllunin heitir Implant Files og segir frá milljónum sjúklinga sem hafa skaðast alvarlega og í sumum tilvikum dáið vegna gallaðra tækja og ígræðslna. Eftirlitsstofnanir hafa í mörgum tilvikum brugðist og horft í gegn um fingur sér með gölluð eða óprófuð tæki.
Hægt er að fletta upp í gagnagrunni eftir tækjum og framleiðendum til að sjá hvort athugasemdir hafi verið gerðar. Gallaðir gangráðar, brjóstapúðar, mjaðmaliðir og augnlinsur eru í umferð um allan heim.
Fréttastofa hafði samband við forstöðumenn Lyfjastofnunar, Sjúkratrygginga og Landspítalans, sem sögðu að málið yrði skoðað ítarlega á næstu dögum.