„Jólin eru tíminn þar sem maður annað hvort ferðast heim eða hugsar heim. Tíminn þegar maður fær loksins að vera heima hjá sér,“ segir Halla Steinunn Stefánsdóttir, listrænn stjórnandi tónlistarhópsins Nordic Affect sem flytur jóladagskrá á opnum jólatónleikum annað kvöld. Tónleikarnir eru undir yfirskriftinni Heim og dagskráin er innblásin af ferð Maríu og Jósefs til Betlehem.
„Rosa mikið af verkum sem við tengjum við jólin eru stór með hljómsveit og kórum þannig að ég ákvað að innblásturinn okkar yrði ferð Maríu og Jóseps til heimaborgar hans, Betlehem,“ segir Halla Steinunn í samtali við Víðsjá. „Og það gerðist eins og við vitum ýmislegt í þeirri ferð og þau urðu stopp,“ bætir hún við glettin.
Tónlistin er flutt á barrokk-hljóðfæri sem Halla Steinunn segir sköpuð fyrir tíma þar sem rýmin voru smærri. „Það var voða mikil nándarhlustun,“ bætir hún við og segir að hugmyndin hafi verið að á hverju heimili eigi hver rödd að heyrast og út frá því hafi ákvörðun verið tekin um að allir í hópnum skyldu fá að velja uppáhalds lög tengd jólunum.
Hluti af sameiginlegri jóladagskrá EBU
Tónleikarnir eru framlag Ríkisútvarpsins til jólatónleikadags EBU, Sambands evrópskra útvarpsstöðva, og verða sendir út í sameiginlegri tónleikadagskrá EBU, sunnudaginn 16. desember kl. 20.00. Á efnisskrá eru verk eftir Anthony Holborne, François Couperin, Dietrich Buxehude, Michael Praetorius, Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur og Eyjólf Eyjólfsson auk hljóðverka eftir Höllu Steinunni Stefánsdóttur sem byggja á hljóðupptökum Magnúsar Bergssonar.
„Hljóðmyndir úr Lífríki Íslands óma síðan um alla Evrópu, takk fyrir!“ Segir Halla Steinunn.
Tónleikarnir hefjast föstudaginn 14. desember kl. 20.00 í Salnum í Kópavogi. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.
Smellið hér til að nálgast nánari upplýsingar um viðburðinn á Facebook.