Það vantar ekki hamaganginn og lætin í stórmyndina Mortal Engines úr smiðju Peters Jacksons með Heru Hilmarsdóttur í aðalhlutverki segir gagnrýnandinn Marta Sigríður Pétursdóttir.


Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Ein af myndunum sem var frumsýnd fyrir jólin var ævintýra- og spennumyndin Mortal Engines, dystópísk framtíðar- og heimsendasaga sem gerist um þúsund árum eftir svokallað 60 mínútna stríð þar sem stafræn tækniþekking mannkyns, eins og við þekkjum í dag, hefur þurrkast út og jarðskorpuflekarnir hafa raðað sér upp á nýtt. Vísindaskáldsagnabálkurinn sem myndin er byggð á tilheyrir undirgrein hins svokallaða cyberpönks - eða gufupönkinu. Hluti mannkyns hefst við í borgum og bæjum á hjólum og togbeltum sem ferðast um og ráðast hver á aðra. Engin borg er stærri og grimmari en sjálf Lundúnaborg. Þetta er sannkölluð stórmynd úr smiðju Peter Jackson sem skrifar handritið og framleiðir myndina en leikstjórnin er í höndum Christian Rivers sem hefur starfað náið með Jackson um langt skeið við tæknibrellur og sem sögutöflu-listamaður en Mortal Engines er fyrsta kvikmyndin sem hann leikstýrir. Kvikmyndin hefur fengið sérstaka athygli hérlendis vegna þess að íslenska leikkonan Hera Hilmarsdóttir fer með aðalhlutverkið í myndinni. 

Mortal Engines byggist á samnefndri bók eftir Philip Reeve og flokkast eins og áður sagði undir svokallað gufupönk. Gufupönk er bæði ákveðin stefna innan vísindaskáldskapar og er svo líka menningarafkimi eða lífstíll þar sem fjöldi fólks hefur gaman af því að klæða sig upp og hittast á mannamótum undir hatti gufupönksins. Gufupönkið vísar í viktoríutímann og 19. öldina og þá tíma þegar vélaaflið var knúið af gufu og ímyndar sér einhvers konar hliðarveruleika í framtíðinni þar sem gufuaflið hefur náð yfirhöndinni sem helsti orkugjafinn með ríkulegum sjónrænum vísunum í tísku og fagurfræði viktoríutímans.

Mortal Engines hefst á því að ráns- og stórborgin Lundúnir gleypir í sig bavarískan námubæ, dularfull kona með rauðan klút fyrir andlitinu er fremst í stefni smábæjarins þegar stórborgin gleypir hann í sig. Þar er vitaskuld á ferð aðalsöguhetjan Hester Shaw leikin af Heru Hilmarsdóttur. Hester reynist eiga sér erkifjanda sem hún hyggst ráða af dögum, Thaddeus Valentine, einn helsta sagnfræðing Lundúnaborgar, sem er leikinn er af Hugo Weaving en hann er mörgum áhorfendum kunnur úr bæði Hringadróttinssögu og Hobbita-þríleikjum Peters Jackson auk þess sem hann fór með hlutverk hins mjög svo ógeðfellda föður Patrick Melrose í samnefndum þáttum sem sýndir voru á RÚV nýverið. Í heimi Mortal Engines eru brauðristar, snjallsímar og önnur nútímatækni orðin að forngripum sem sögupersónur vísa til sem „old tech“ eða gamallar tækni sem bæði heillar og hræðir sögupersónurnar. Mortal Engines er þannig bæði saga um hefnd munaðarleysingja og mikilmennskubrjálæði illmennis sem svífst einskis til þess að eyðileggja ennþá meira í tættum heimi.

Í Asíu búa hins vegar hinir svokölluðu and-togbeltissinnar þar sem borgir eru landfastar og kyrrsettar en Lundúnaborg á hjólum ógnar þessari heimsskipan og undir hvelfingarþaki St. Pauls dómkirkjunnar er hættuleg uppfinning sem gæti mögulega tortímt heiminum aftur.

Hester fær svo liðsauka í Tom Natsworthy, öðrum sagnfræðingi sem slæst óviljandi í för með Hester þegar þeim er báðum úthýst úr Lundúnaborg á fleygiferð. Á vegi þeirra verður meðal annars hinn ógnvekjandi Shrike sem er einhvers konar zombie vélmenni sem eitt sinn var mennsk vera, Thaddeus Valentine sleppir ófreskjunni lausri Hester Shaw til höfuðs, tenging hennar við bæði Thaddeus og Shrike reynist svo vitaskuld vera dýpri en virðist vera við fyrstu sýn. Á vegi þeirra verður einnig hin ofursvala Anna Fang, sem leikin er af suðurkóresku poppstjörnunni Jihae, sem fer fyrir andspyrnuhreyfingunni sem berst gegn togbeltisborgunum. Anna Fang minnti mig einna helst á Morpheus úr Matrix í ytra atgervi, eða vali á sólgleraugum að minnsta kosti.  

Mortal Engines er að mörgu leyti mjög hefðbundin ævintýramynd sem vísar ríkulega í sagnabrunn vísindaskáldskapar, ævintýra og Hollywoood-stórmynda og þá sérstaklega Stjörnustríðsmyndanna. Undir lok Mortal Engines er til að mynda atriði sem er nánast endurgerð á lokaatriði fyrstu Stjörnustríðsmyndarinnar. Það var eiginlega einum of. 

Ég skellti mér á Mortal Engines á milli jóla og nýárs og ég verð að segja að ég og systir mín sem fór með mér skemmtum okkur bara mjög vel, mér fannst notalegt að hverfa inn í heim sem var bæði kunnuglegur og framandi. Handritið er ekki sérstaklega burðugt og margar klisjur í frásagnarframvindu og nokkuð innihaldsrýr samtöl en þar sem ég hef ekki lesið bækurnar þá fannst mér gaman að hverfa inn í þennan áður óþekkta dystópíska framtíðarheim og sem fyrrverandi íbúi Lundúnaborgar þá fannst mér þessi framsetning á borginni í formi óargavélar sem tætir allt í sig sem fyrir henni verður nokkuð góð. 

Ég verð að viðurkenna að gufupönk er ekkert endilega minn tebolli og mér finnst eitthvað skemmtilega hallærislegt við fyrirbærið en ég efast ekki um að þeir sem hrífast af stefnunni komi ánægðir út af myndinni sem er vissulega mjög vel gerð og hvergi til sparað í búningum, tæknibrellum og sviðsmynd. Ég fatta reyndar ekki alveg hvernig borgirnar ná að vera svona risavaxnar og á hjólum á sama tíma og mannkynið virðist vera nokkuð tækni- og orkuheft og hver sagan var á bak við þetta zombie-vélmenni sem var eiginlega yfirnáttúrlegt innan hins annars alfarið mennska heims. Það er ekki endilega verið að útskýra þetta neitt sérstaklega fyrir áhorfandanum. 

Þetta plagaði mig þó ekki neitt sérstaklega og eins og áður sagði þá þjónaði þessi mynd tilgangi sínum sem prýðilegasta afþreying á milli jóla og nýárs. Það er vel valið í hlutverkin í myndinni og Hera Hilmarsdóttir stendur sig vel í hlutverki Hester Shaw og ljær persónunni kraft, dulúð og líka viðkvæmni en það er svo sem ekki mikið rými til þess að kanna persónusköpun vegna þess að þetta er vitaskuld fyrst og fremst spennu- og ævintýramynd sem er drifin áfram af sprengingum, æsingi og tæknibrellum. Hester er samt flott kvenhetja og það er nokkuð óvanalegt að aðalkvenpersóna í Hollywood-mynd sé með ör þvert yfir andlitið en andlitslýti hafa yfirleitt tilheyrt deild vondu kallanna, og þetta er ekki krúttlegt ör eins og eldingin á enni Harry Potter, en tilurð öranna þeirra Harry og Hesters kallast á í gamalkunnugu stefi. 

Myndin er nokkuð löng, í anda mynda Peters Jacksons, eða um 128 mínútur og ég var alveg búin að fá nóg í lokin af hamaganginum. Ég hefði auðvitað viljað fá aðeins safaríkari söguþráð og mér fannst sem hinn gufupönkaði og dystópíski heimur væri ekki alveg nógu trúverðugur og djúpur en þetta var nokkuð lífleg þeysireið á hvíta tjaldinu.