„Með því að setja þennan vef á laggirnar erum við að uppfylla samning við UNESCO um varðveislu óáþreifanlegs menningararfs," segir Vilhelmína Jónsdóttir verkefnisstjóri hjá Árnastofun. Stofnunin sér um vefinn lifandihefdir.is fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Á vefnum er ætlunin að safna saman upplýsingum um lifandi hefðir af öllu tagi. „Samningurinn færir sjónarhornið frá hinu áþreifanlega og efnislega að hinu óáþreifanlega í menningunni. Þ.e.a.s. að handverki, kunnáttu og ýmiss konar iðkun sem í felst mikilvæg þekking sem kann að vera mikilvægt að viðhalda og varðveita. Í þessu samhengi má taka það fram að í varðveislu samkvæmt samningnum felst ekki að það eigi að frysta eða staðla hefðir. Þvert á móti er gengist við þeirri umsköpun og endursköpun sem á sér stað sem og þeirri fjölbreytni sem finnst innan hefðarinnar. Þetta þarf vefur um lifandi hefðir að endurspegla og því má segja að hann sé viðvarandi verkefni."