„Staðan hefur breyst gífurlega mikið á fáum árum,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson um það hversu ágeng ensk tunga er orðin í íslensku málsamfélagi.

Afgreiðslufólk ávarpar viðskiptavini gjarnan á ensku. Hingað hefur flust fjöldi fólks í þenslunni til að sinna ótal mörgum störfum fyrir okkur, án undirbúnings. „Við höfum ekki sinnt því nægilega vel að kenna þessu fólki íslensku. Framboð er ekki nógu gott á námsefni og námskeiðum. Við getum eiginlega sjálfum okkur um kennt,“ segir Eiríkur um stöðuna.

Þau Eiríkur og Sigríður Sigurjónsdóttir, sem bæði eru prófessorar í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, leiða viðamikla  könnun á stöðu íslensku og ensku í íslensku málsamfélagi, ásamt fjölda samstarfsfólks innanlands og utan. Þau ræddu um tunguna og könnunina á Morgunvaktinni á Rás 1.

Bréf, þar sem óskað er eftir að viðtakendur taki þátt í netkönnun um þetta efni, hefur verið sent til 3.500 Íslendinga, 13 ára og eldri. Þetta er aðeins fyrsti hluti rannsóknar á tungunni og sambýlinu við enskuna, en ágengni hennar jókst mjög við tilkomu snjalltækja og í þeirri þenslu sem verið hefur að undanförnu á vinnumarkaði með stórvaxandi ferðamannastraumi. Könnunin verður síðan aðlöguð börnum á aldrinum 3 til 12, til að kanna málnotkun þeirra. „Þetta er rannsókn á málnotkun, viðhorfum, og á málumhverfi, hversu mikið menn hrærast í íslensku og ensku,“ segir Sigríður Sigurjónsdóttir um könnunina, þar sem ýmis málfræðilega atriði eru skoðuð ásamt netnotkun, og líka hvaða tæki eru þá við hendina. „En það er mikilvægt að taka fram að þetta er ekki próf, heldur bara mjög skemmtilegt.“

Slíka könnun á sambúð íslensku og ensku hefur vantað til að styrkja umræðuna um stöðu og framtíð þjóðtungunnar. „Það eru til staðlar um lífvænleika tungumála, frá UNESCO og fleirum, þar sem margir þættir eru metnir. Miðað við þá kvarða ætti að íslenska að standa mjög vel,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson. „Hinsvegar hafa menn á síðustu árum sett fram kenningar um að þessi atriði, sem notuð eru til viðmiðunar, séu að einhverju leyti úrelt vegna þess að tækniheimurinn sé svo breyttur. Það er til hugtak sem nefnist stafrænn dauði (digital death), sem menn tala um að tungumál geti orðið fyrir. Þau séu ekki áberandi eða jafnvel ekki nothæf í þessum stafræna heimi. Þá er það spurningin hvaða áhrif það hefur. Hvort mál getur lifað góðu lífi í raunheiminum þó það verði undir í stafræna heiminum.“

Málfræðingarnir eru vongóðir um að könnunin hjálpi við að meta stöðuna í málsamfélaginu og gefi vísbendingar um hvað gera megi til að styrkja þjóðtunguna. „Þessi könnun ætti að gefa okkur mynd af stöðunni og það er mikilvægt fyrir framtíðina að hún sé gerð núna,“ segir Sigríður og bendir á að snjalltækjabyltinin hafi skollið á 2010. Þetta sé því ný þróun sem ekki verði stöðvuð. Sigríður bætir því við að íslenskan sé að vissu leyti prófmál, niðurstöðurnar ættu að nýtast öðrum þjóðum. „Við erum fámenn og það er auðveldara að fá yfirlit um allt málsamfélagið. Það er sama áreitið alls staðar af enskunni.“