Hallgrímur Helgason hlaut viðurkenningu rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins í vikunni en hann vinnur nú að sögulegri skáldsögu um íslenska torfbæjarsamfélagið. Hann ræddi sköpunina, Shakespeare, tungusófann, skugga Laxness og hvernig hann „hnusar“ af bókum við Guðna Tómasson í Víðsjá.

Næstum 30 ár eru síðan fyrstu bækur Hallgríms komu út, hefur hann breyst mikið á þessum tíma? „Það er einhver kjarni sem er eins en maður hefur annað sjónarhorn á ansi marga hluti. Kvennabókmenntir voru til dæmis nánast skammaryrði þegar ég var að koma fram á sjónarsviðið. Það er margt sem maður hefur lært, margir fordómar sem maður hefur lagt niður.“ Í erindi sem Hallgrímur flutti þegar hann tók á móti viðurkenningunni sagði hann að ekki mætti taka bókmenntirnar of hátíðlega, en hann telur þó að höfundar hafi tilhneigingu til að verða hátíðlegri með aldrinum. „Þetta hefur verið einhver tilraun til að yngja mig upp,“ segir hann glettinn. „Maður verður alltaf hátíðlegri og ljóðrænni. Höfundarferðalagið fer frá kómík yfir í dramatík.“

Hallgrímur telur það þroskamerki að fjalla um mannlegan sársauka og harm, hann hafi sjálfur verið meira á fyndnu nótunum í sínum fyrstu bókum heldur en seinna á ferlinum. „Maður fer inn á nýtt svæði og þarf að finna upp nýtt tungumál fyrir hverja bók. Þess vegna getur maður ekki gefið út bók á hverju ári eins og glæpasagnahöfundarnir, sem maður öfundar stundum af hvað þeir geta verið duglegir.“ Hann er núna að vinna að skáldsögu sem gerist um aldamótin 1900 og á að lýsa ferðalagi Íslands úr myrkri torfbæjanna og inn í nútímann. „Þá þarf maður að lesa sér rosalega mikið til.“

Frá því Hallgrímur byrjaði að skrifa hefur það færst mjög í vöxt að bækur íslenskra höfunda, til að mynda hans eigin, séu þýddar á erlend tungumál. Hefur þetta áhrif á skrifin, er hann að hugsa um hvernig útlendingar skilja bækurnar? „Þegar best lætur tekst að gera bæði, vera lókal og glóbal. Ég hef aldrei hugsað mikið um þetta hvort það sé eitthvað fólk úti sem bíði, en þetta er vissulega annar veruleiki.“ Hann tekur dæmi af því þegar hann skrifaði 101 Reykjavík hafi hann vitnað í Hemma Gunn og Halla og Ladda, menningarfyrirbæri sem er illa hægt að útskýra fyrir útlendingum. „En svo týnist þetta af manni, maður fer að hugsa meira í grundvallarlínum. En það má samt ekki skrifa svona útvatnaðan texta sem er allt of auðvelt að þýða, það er leiðinlegt.“

Ljóðin koma á klósettinu

Síðustu tvær bækur Hallgríms voru persónulegar ljóðabækur, hvenær orti hann síðast? „Bara núna fyrir hádegi. Við vorum að leggja okkur ég og konan mín, lágum í rúminu og það heyrðist í snuði barnsins míns við hliðina á mér. Þá kom þetta fínasta ljóð.“ Hann segir ljóðin koma til sínum á ólíklegustu tímum. „Maður er kannski að skrifa skáldsögu, svo fer maður á klósettið eða liggur upp í rúmi, þá koma ljóðin. Mér líður stundum eins og ég sé sauðfjárbóndi í blómarækt, þetta er svona aukabúgrein að yrkja ljóðin. Það er aðeins öðruvísi meðferð, þarf að vera fínlegri. En svo gengur maður til gegninga og fer út í fjárhúsin og vinnur sína vinnu, það er skáldsagan. Það er meira púl.“

Á síðasta ári þýddi Hallgrímur Óþelló og fékk þýðingarverðlaun fyrir en hann líkir Shakespeare við fjall sem gnæfir yfir bænum sem hann býr á. „Alltaf gaman að ganga á það og maður kemur niður sem nýr maður.“ Aðspurður um Halldór Laxness segir hann langt síðan að íslenskir rithöfundir komu undan skugga hans. „Það hefur gengið svo vel hjá íslenskum höfundum, ég held að enginn sé í skugga Laxness lengur, heldur bara njóti góðs frá birtunni af honum.“

Hnusað af bókum

Hallgrímur segist lesa mikið sjálfur og reyna að fylgjast með því sem kollegarnir og unga kynslóðin er að skrifa. „Ég hnusa af ansi mörgum bókum, les kannski 50–100 blaðsíður. Það þýðir ekki að ég hætti af því þær séu leiðinlegar heldur kem ég kannski heim og þá er einhver búinn að gefa mér nýjustu bókina sína og þá hnusa ég af henni, og það liggur við ég fái nýja bók á hverjum degi.“ Bóklestur fer þó almennt minnkandi og í erindi sínu sagði Hallgrímur tungusófann helstu ógnina við íslenska tungu. „Hann er stórhættulegur. Netflix, Facebook, Twitter, Instagram og Snapchat, þetta er allt mjög tímafrekt. Þetta atriði í áramótaskaupinu sýndi manni hvernig staðan er og þess vegna var það svona fyndið.“

Hallgrímur hefur ekki bara skrifað skáldskap, heldur einnig tekið virkan þátt í þjóðmálaumræðu undanfarinn áratug, hefur það styrkt hann sem rithöfund? „Ég stundum efast um það. Stundum finnst mér þetta bara vera tímaeyðsla, því árangurinn er nánast enginn. VG fer í stjórn með Bjarna Ben, sama hversu mikið maður er búinn að hamast á honum og sýna hversu spilltur stjórnmálamaður hann er. Þetta ærir mann bara og maður hefur tilhneigingu til að gefast upp í bili, snúa sér að heimilissælunni og litla barninu.“ Hann getur þó ekki þagað yfir hverju sem er. „Manni er misboðið og þá verður maður að nota þetta vopn sem maður hefur, þessa rödd, þó að það virðist engin áhrif hafa.“

Guðni Tómasson ræddi Hallgrím Helgason í Víðsjá.