Læknar í Danmörku vara eindregið við því að fólk sprauti svokallaðri parafín-olíu í vöðva, til að láta þá virðast stærri. Tuttugu og sex ára gamall maður lést skömmu fyrir jól eftir að hafa sprautað sig með olíunni.

Yfir fimmtíu eru nú í einhvers konar meðhöndlun á Herlev-sjúkrahúsinu í Danmörku eftir að hafa sprautað sig með parafín-olíu. Ebbe Eldrup, yfirlæknir á Herlev spítalanum, segir að þau segi öll sömu sögu, að mikill fjöldi fólks í kringum þau noti parafín olíu sömuleiðis. 

„Við gerum því ráð fyrir að virkir notendur skipti þúsundum,“ segir Eldrup. 

Olían nýtist til dæmis sem hægðalyf en er einnig seld sem eldsneyti í lugtir. Það færist hins vegar sífellt í vöxt að fólk sprauti sig með olíunni, ýmist til að fá stærri vöðva eða stærri brjóst. Dæmi eru um að konur í Danmörku hafi þurft að láta fjarlægja brjóst sín eftir að hafa látið sprauta olíunni í þau.

Bróðir Victoriu Mika var lagður inn á spítala vegna hjartsláttatruflana skömmu fyrir jól og lést nokkrum dögum síðar. Hann hafði undanfarin ár sprautað vel á þriðja lítra af parafín-olíu í vöðva. 

„Ætli það séu ekki um tíu ár síðan hann byrjaði á þessu. Ég hélt að hann væri bara svona duglegur að æfa, þess vegna yrði hann sífellt þreknari,“ segir Mika. 

Lucas Emdal er einn þeirra sem sprautaði sig reglulega með parafín-olíu. Hann ber þess aldrei bætur. Það er ekki hægt að fjarlægja olíuna úr líkamanum. 

„Það eina sem heldur mér á lífi í dag eru lyf sem ég tek við ástandi mínu,“ segir Emdal, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.