Kvikmyndin Las Herederas eða Erfingjarnir er sýnd í Bíó Paradís um þessar mundir og er fyrsta mynd paragvæska leikstjórans Marcelo Martinessi. Myndin fjallar um konur í skuldavanda sem tilheyra efri stétt Paragvæ.
Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:
Myndin fjallar um roskið lesbíupar, þær Chiquitu og Chelu, sem búa við hverfandi vellystingar í höfuðborg Paragvæ, Asunción. Konurnar hafa búið saman í áratugi og tilheyra efri stéttinni í landinu en eru á sama tíma skuldum vafnar, en þær hafa aldrei þurft að vinna fyrir sér og hafa vanist því að hafa þjónustufólk sér til halds og trausts. Erfingjarnir er fyrsta mynd Marcelo Martinessi sem leikstýrir og skrifar handrit myndarinnar og hlaut myndin tvenn verðlaun á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á árinu.
Önnur aðalleikkonan, Ana Brun sem leikur Chelu, hlaut Silfurbjörninn fyrir leik sinn, sem verður að teljast afrek vegna þess að hún er óreynd kvikmyndaleikkona líkt og hin aðalleikkona myndarinar, Margarita Irún sem er þó þaulreynd sviðsleikkona í Paragvæ. Leikstjórinn sem sjálfur er alinn upp í heimi yfirstéttarinnar í Paragvæ vildi gjarnan segja sögu úr því samfélagi sem hann þekkir sjálfur svo vel til og sýna þann yfirgengilega stéttamun sem er í landinu. Það er nokkuð sláandi að sjá í myndinni að Chela og Chiquita séu það skuldugar að Chiquita þarf að fara í fangelsi og Chela þarf að selja eigur þeirra, en á sama tíma ráða þær til sín þjónustustúlku sem hugsar um Chelu á meðan Chiquita fer í fangelsi.
Myndin hefst á því að við sjáum Chelu í þunglyndi en hún virðist stóla á Chiquitu með alla hluti, en þegar Chiquita fer í fangelsi hefst nýr kafli í lífi Chelu þegar hún upplifir nýtt frelsi. Hún verður að leigubílstjóra fyrir nágrannakonu sína Pituca fyrir hálfgerða tilviljun og í kjölfarið fer hún að keyra fínar frúr úr hverfinu sínu fyrir hóflegt gjald þrátt fyrir að hafa veigrað sér við því að keyra bíl. Chela kemst þannig út úr sínum þrönga heimi, bæði í heimsóknum sínum til Chiquitu í fangelsið og sem bílstjóri. Í hlutverki sínu sem bílstjóri kynnist Chela Angy, heillandi og hispurslausri yngri konu sem daðrar við hana og hjálpar henni að komast út úr skelinni.
Erfingjarnir eru bæði lágstemmt stofudrama þar sem ein mubblan á fætur annarri er seld samhliða vaxandi frelsi og léttleika Chelu á meðan Chiquita er föst í fangelsinu sem er andstæður hliðarveruleiki yfirstéttarlífsins. Myndin fjallar þannig ekki sérstaklega um réttindabaráttu samkynhneigðra eða gerir sér mat úr því sem aðeins er ýjað að, Chela og Paquita virðast hafa lifað án stórra áfalla í verndarhjúp auðs síns í þessi þrjátíu ár sem samband þeirra hefur varað, Chela er einfaldlega óhamingjusöm og bæld í sambandinu eins og svo margar aðrar eiginkonur á undan henni. Bílinn verður einnig að tákni fyrir nýfengið frelsi Chelu og drífur áfram framvindu sögunnar.
Erfingjarnir er heillandi og áhugaverð mynd sem dregur upp trúverðuga mynd af lífi þessara kvenna og ávarpar félagslegt óréttlæti og hina miklu stéttaskiptingu sem fyrirfinnst í Paragvæ en skyggnist líka inn í sálarlíf eldri konu sem loksins blómstrar þegar hún fer að taka meiri þátt í samfélaginu og er frjáls undan ráðríki sambýliskonu sinnar.