Vindátt á vettvangi eldgossins á Fimmvörðuhálsi hefur breyst og blés um tíma ösku og gufu yfir þá sem voru á göngu. Hluta gönguleiðarinnar var lokað og fólk var beint aðra leið.
Jón Hermannsson björgunarsveitarmaður segir að fyrir um klukkustund hafi myndast mikil hrauná út úr aðal hraunmassanum. Hún renni í suður frá gosstöðvunum og í sömu stefnu og göngustígurinn niður að skógum. Þegar hraunið hafi farið yfir snjóinn hafi orðið miklar sprengingar. Erfitt sé að sjá fyrir gufu í um 500 metra fjarlægð frá hraunjaðrinum. Björgunarsveitarbílar hafi farið inn í gufuna til að reka fólk í burtu.
Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavörnum segir að fólkið sem sé á göngu lendi í gufum og reyk. Litlar gufusprengingar séu þarna núna og björgunarsveitarmenn biðji fólk að færa sig frá.
Talið er að allt að 5000 manns hafi lagt leið sína á gossvæðið í dag. Kvartanir hafa borist lögreglu vegna glannaskapar og björgunarsveitarmenn segja að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær slys verði með þessu áframhaldi.
Stöðug bílaumferð hefur verið austur fyrir fjall frá miðnætti en lögregla segir umferð hafa gengið vel. Flestir fóru fótgangandi á gosstöðvarnar en þegar mest var voru um tvö þúsund manns á svæðinu um hádegisbilið. Fjöldi ökutækja er á svæðinu en lítilli fisvél hlekktist á við lendingu á gossvæðinu í dag og skemmdist hún, en flugmaður sem var einn um borð slasaðist ekki. Rannsóknarnefnd flugslysa er á leiðinni á vettvang ásamt lögreglu. Guðmundur Ingi Ingason, varðstjóri hjá lögreglunni á Hvolsvelli, segir að svo virðist sem fólk missi sig og fari ógætilega. Hann segist vona að fólk rói sig niður og hegði sér skynsamlega.