Leirfok við Langjökul geta verið hættuleg

09.08.2016 - 18:46
Mynd með færslu
 Mynd: Loftmyndir
Mynd með færslu
 Mynd: Loftmyndir
Mynd með færslu
 Mynd: Loftmyndir
Mynd með færslu
 Mynd: Loftmyndir
Gríðarlegt leirfok varð við Langjökul á sunnudaginn. Verkefnisstjóri hjá Landgræðslunni segir að slík fyrirbrigði eiri engu og geti verið hættuleg. Eftir því sem jöklar hörfi meira gerist þetta oftar og hann geri því ráð fyrir að ástandið muni versna. Erfitt sé hins vegar að bregðast við.

Skúli Magnús Þorvaldsson, landfræðingur hjá Loftmyndum, var við loftmyndatöku yfir Eystri Hagafellsjökli í Langjökli á sunnudag. Undir lok dags varð Skúli var við mikið fok á svæðinu og tók þá meðfylgjandi myndir. Skúli giskar á að strókarnir hafi náð rúmlega tveggja kílómetra hæð. Skúli segist ekki hafa séð svo háa stróka áður, en hann hefur unnið við loftmyndatöku í 15 ár. Andrés Arnalds, verkefnisstjóri hjá Landgræðslunni, segist ekki hafa séð slíkar myndir áður.

„Aldrei á þessum skala, þetta eru mögnuðustu myndir af svona foki sem ég hef nokkru sinni séð.“

Hvað sjáum við á þessum myndum?

„Við sjáum fyrst og fremst jökulleir sem hefur sest fyrir á vatnsbotninum þegar jökulinn hörfaði og vatnið myndaðist. Og svæðið þornar upp og vindurinn nær tökum á þessu og feykir þessu bæði áfram og beint upp í loftið.“

Þetta er ansi mikið fok ekki satt?

„Þetta er gríðarlegt magn þarna á ferðinni.“

Getur valdið skaða á öndunarfærum

Andrés segir að eftir því sem jöklar hörfi meira gerist þetta oftar, sem sé slæmt.

„Þetta er það að mörgu leyti. Ef magnið er mjög mikið geta myndast svona haugar af sandi eða leir sem vindurinn nær tökum á og þá myndast svona leir- eða sandalda sem eirir engu.“

Þetta efni sé hins vegar frekar fíngert og dreifist því víða.

„En það má ekki gleyma því að jafnframt er mikill sandur að koma upp úr þessum þornaða vatnsbotni. Og hann er hættulegur.“

Hverjum er hann hættulegur?

„Fyrst og fremst fyrir gróður. En leirinn er til mikilla óþæginda og getur valdið skaða á öndunarfærum, sérstaklega fyrir fólk með asma.“

Ef þetta nær til byggða?

„Þetta nær til byggða, allavega í uppsveitum Árnessýslu og gerir það reyndar mjög oft.“

Andrés segir að hugsanlega væri hægt að hækka vatnsborð Hagavatns með því að stífla útrennsli frá vatninu og minnka þannig fokið. Sú hugmynd sé hins vegar mjög umdeild. Þá væri einnig hægt að reyna að græða svæðið upp, en það sé blautt og erfitt viðureignar og slík aðgerð gæti því orðið mjög dýr.

Ef ekkert er að gert, getur ástandið versnað?

„Ég geri ráð fyrir að það geri það. Það kemur alltaf meira upp af landi með miklum leir þegar jöklarnir hörfa. Þannig að við þurfum að vera mjög vel á vaktinni, ekki bara þarna heldur miklu, miklu víðar,“ segir Andrés.