Lífshlaup og lífssýn Sigurðar Guðmundssonar, ýtustjóra í Flóanum, varð myndlistarmanninum Ólafi Sveini Gíslasyni að innblæstri og efnivið á sýningunni Huglæg rými sem opnuð var á dögunum í Listasafni Árnesinga. Rætt var við Ólaf í Víðsjá á Rás 1.
Alla tíð á sama bæ
Sigurður Guðmundsson, þekktur fyrir sveitungum sínum sem Denni, hefur verið búsettur á Sviðugörðum í Gaulverjarbæjarhreppi alla sína tíð. Sigurður verður 77 ára í vor en er alltaf að fást við eitthvað samkvæmt myndlistarmanninum Ólafi Gíslasyni sem kynntist Denna þegar hann flutti í Flóann fyrir nokkrum árum og byggði sér hús og vinnuaðstöðu.
„Hann er fæddur þarna í gamla bænum og hefur alltaf búið á þessum bæ,“ segir Ólafur. „Það er ein vídd í þessu sem heillar mig, hvernig hann er nátengdur staðnum og sagan lifir mjög sterkt í honum. Hann býr þarna einn og hefur gert það alveg síðan að foreldrar hans létust og því lifa forfeður hans einhvern veginn í honum líka. Svo er manneskjan bara mjög áhugaverð. Ég er svo mikið borgarbarn sjálfur að hann gerir mér þetta aðgengilegt.“
Kvikmynd, skúlptúrar og vatnslitur
Innsetningin teygir sig nánast um öll salarkynni Listasafns Árnesinga. Á skjáum segir Sigurður frá ásamt nokkrum sveitungum sínum sem þó eru að leika hann og fara með hans frásögn. Handritið er byggt á ýtarlegum viðtölum Ólafs við Sigurð. Auk þess kemur Þór Tulinius leikari fram í verkinu sem Sigurður. Þannig fæst marglaga frásögn af löngum tíma og til viðbótar við kvikmyndirnar hefur Ólafur gert skúlptúra úr ljósmyndum sem allir tengjast umhverfi Sigurðar á Sviðugörðum.
„Í húsakynnum hans eru hlutir sem að forfeður hans skildu eftir sig og líka hitt og þetta sem hann hefur sjálfur búið til, því að jafnvel þó að hann segist stundum ekki kunna neitt, þá hefur hann smíðað ýmislegt í gegnum tíðina. Hann bara gerir það sem þarf.“
Ekki heimildarmynd
Ólafur segist ekki vera að búa til ævisögu um Sigurð nágranna sinn. „Þetta er náttúrulega mikil heimild en ég er ekki upptekinn af því endilega. Ég er til dæmis áhugasamur um hvað þetta gerir við mig í ferlinu. Þess vegna flæki ég málin með því að vera að búa til þessa skúlptúra sem eru byggingar eða huglæg rými og vatnslitamyndir þar sem ég fjalla um einstök hugtök sem tengjast Sigurði. Ég er að opna inn í hans líf en er líka áhugasamur um það að þetta sé leikur og jafnframt er þetta einhver meðferð sem að snýr fyrst og fremst að mér,“ segir Ólafur.
Viðtalið við Ólaf Svein Gíslason úr Víðsjá má heyra í heild hér að ofan, en nánari upplýsingar um sýninguna má nálgast á heimasíðu Listasafns Árnesinga.