Um það bil þrjátíu ljóðaunnendur þekktust boð svikaskálda að mæta á Slippbarinn á alþjóðlegum degi ljóðsins, hlusta á ljóð úr ýmsum áttum og yrkja síðan út frá þeim ljóðum, eða ekki. Lesa síðan upp hin nýortu ljóð, eða ekki, og leyfa þar með öðrum að nýta sér í sín ljóð.

Alþjóðlegum degi ljóðsins var fagnað á fimmtudag 21. mars, meðal annars með Ljóðastund svikaskálda sem Reykjavik bókmenntaborg UNESCO stóð fyrir á Slippbarnum í Reykjavík. 

Ljóðakvöld svikaskáldanna var sagt óður til trausts, svika og innblásturs sem ljóðskáld og annað listafólk fær hvert frá öðru. Í þættinum Orð um bækur var gerð tilraun til að miðla þessum einbeitingarfulla gjörningi.

Ljóðastund með svikaskáldum hófst á ljóðalestri. Svikaskáldin Þóra Hjörleifsdóttir, Þórdís Helgadóttir, Fríða Ísberg og Sunna Dís Másdóttir lásu upp ljóðin Fullkomnun er dauði og Svik eftir sjálfa sig. Þóra Hjörleifsdóttir las þýðingu sína á tveimur ljóðum eftir Mario Oliver, Sumardagurinn og Ég þekki eina. Þórdís Helgadóttir las þýðingu sína á ljóðinu Um dauða eftir Jo Shapcott og Good Bones eftir Maggie Smith á frummálinu ensku.

Að þessum lestri loknum fengu gestir kvöldsins næði til að skrifa ljóð í fimmtán mínútur og einarðlega hvattir til að stela línum og/eða hugmyndum úr því sem lesið hafði verið.

Þessi leikur var svo endurtekinn og hófst með lestri nokkurra ljóða. Sunna Dís Másdóttir las nokkur ljóð úr ljóðabálki Athenu Farrokhzad Hvítsvíta sem kom út í þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl árið 2017 og ljóðið Hús eftir Ewu Lipska úr bókinni Neyðarútgangur sem kom út í ritstjórn Olgu Holowinu árið 2013. Fríða Ísberg las ljóðið The Aplicant úr ljóðabókinni Ariel eftir Silviu Plath á ensku og eigin þýðingu sína á ljóðinu Króna eftir Paul Celan.

Þegar ljóðastund með svikaskáldum var formlega lokið fékk ég nokkra af gestunum til að lesa ljóð sem þau höfðu ort á þessu kvöldi undir áhrifum ljóðanna sem lestin höfðu verið upp. Þetta voru þau Anton Helgi Jónsson, Sigrún Björnsdóttir, Sigrún Sigmarsdóttir og Jason Slade auk tveggja ónefndra skáldkvenna.