Sviðslistamaðurinn Friðgeir Einarsson og leikhópurinn Abendshow leitast við að upplýsa tíu ára gamla ráðgátu í leikritinu Club Romantica, sem verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu í kvöld.
Í verkinu fjallar Friðgeir um þrjú myndaalbúm, sem hann keypti á flóamarkaði í Brussel árið 2008. „Þegar ég fór að skoða þau sá ég að þau tilheyrðu öll sömu konunni sem hafði farið tvisvar til Mallorca og síðan gift sig á 9. áratugnum.“ Hann hélt upp á albúmin og grandskoðaði, og reyndi að átta sig á tengslum persóna á myndunum og velti fyrir sér afdrifum konunnar; til að mynda af hverju myndirnar hennar hefðu ratað á flóamarkað.
„Svo fyrir nokkrum árum komst ég að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti að skila þessum myndum. Þetta eru vönduð albúm og hafði greinilega farið mikil vinna í að setja þetta saman þannig mér fannst ég þurfa að skila þessu til réttmæts eiganda.“
Það reyndist þrautin þyngri því Friðgeir vissi ekki hvað konan hét og hafði fáar vísbendingar til að fara eftir. Hann þurfti því að bregða sér í hlutverk einkaspæjara og fór Belgíu og til Mallorca á hótel sem nefndist Club Romantica, þar sem konan hafði dvalist.
„Það er ástæða fyrir að ég er ekki starfandi sem rannsóknarlögreglurmaður eða einkaspæjari,“ segir Friðgeir. „Mér finnst erfitt að spyrja nærgöngulla spurninga og tala við fólk sem ég þekki ekki. En án þess að gefa of mikið uppi náði ég samt að yfirstíga þessar hindranir og komst að niðurstöðu sem verður kynnt í sýningunni. Þetta verður jafn æsispennandi og Ófærð eða hvað annað.“