Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir mikilvægt að regluverk sem tryggi rétt leigjanda á leigumarkaði verði hert. Stéttarfélög þurfi að stíga inn og styðja við bakið á samtökum sem séu í virkri neytendavernd fyrir fólk á leigumarkaði.

Þak á leiguverð íbúðarhúsnæðis er meðal þess sem stjórnvöld eru að skoða til að bregðast við vanda leigjenda. Viðhorfskönnun sem ráðgjafafyrirtækið Zenter gerði fyrir Íbúðalánasjóð á dögunum leiddi það í ljós að aðeins átta prósent leigjenda vilja vera á leigumarkaði. Fimmtungur óttast að missa húsnæði sitt. og aðeins þrjú prósent taldi það hagstætt að vera á leigumarkaði. Helmingur þeirra sem tóku þátt í könnuninni sá fáa eða enga kosti við að leigja og nær allir töldu óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði á Íslandi.  Ragnar Þór ræddi stöðu leigjenda við Morgunútvarpið á Rás tvö í morgun. 

„Þær hækkanir sem hafa orðið hjá stóru leigufélögunum eru algjörlega úr öllum takti og öllu velsæmi sem að hefur verið núna undanfarin ár og við verðum einfaldlega að koma þessum hópum til varnar með því að setja einhverskonar regluverk og þá erum við fyrst og fremst að vísa til regluverks sem að er víðast hvar á Norðurlöndunum.“

Nauðsynlegt að herða regluverkið

Ragnar segir að einnig þurfi að brýna regluverkið svo fólk geri leigusamninga í stað þess að leigja svart. Leigusamningar muni þá verja fólk gegn hækkunum sem eru markaðsdrifnar og tryggja fólki búsetuöryggi. 

„Grundvallaratriðið er það að herða regluverk og styrkja stöðu leigjanda sem neytendur á markaði, að gera það í gegnum regluverkið þannig að við séum líka með öflug neytendasamtök leigjanda sem brýna þá og ýta eftir að það séu gerðir leigusamningar í öllum tilfellum þegar fólk leigir og þá þurfum við að herða viðurlög eða eitthvað til að tryggja það að það verði gert, því það eina sem tryggir búsetuskilyrði fólks eru traustir og góðir leigusamningar. “

Ragnar segir nauðsynlegt að stórefla neytendavernd fólks á leigumarkaði. Samhliða því þurfi að efla og styrkja löggjöfina. Staðan í dag sé snúin að því leytinu til að fólk á leigumarkaði þori ekki að leita réttar síns því það sé hrætt um að missa húsnæði sitt. 

„Við vitum um nýlegt dæmi þar sem eldri borgari leitaði réttar síns gegn leigufélagi eldri borgara varðandi gjaldtöku í gegnum hússjóð eða rekstrarsjóð félagsins og vinnur málið þar sem að gjaldtakan er dæmd ólögmæt frá upphaflegum samningi og henni er sagt upp leigu og kastað á götuna, yfir 90 ára gamalli konu. Þetta er algjörlega óviðunnandi ástand að þetta séu skilaboðin til þeirra sem eru á leigumarkaði, að ef þeir sækja rétt sinn þá gætu þeir endað á götunni.“

Ragnar segir að stéttarfélögin þurfi því að láta til sín taka og styðja betur við bakið á samtökum sem séu í virkri neytendavernd fyrir fólk á leigumarkaði. Auk þess þurfi stéttarfélögin að beita sér fyrir því að framboð verði stóraukið, sem skili sér vonandi í lækkuðu leiguverði. 

Hlusta má á viðtalið við Ragnar Þór í spilaranum hér að ofan.